Hvert eiga þeir sem eru með ígrætt nýra að snúa sér þegar þeir greinast með Covid
Félagið sendi fyrirspurn á Má Kristjánsson yfirmanni Covid göndudeildar um mikla fjölgun Covid smita og sérstaklega hvað varðar ónæmisbælda sem eru í meiri áhættu en aðrir. Sjá eftirfarnandi svör frá Má:
Varðandi fyrirspurn sem snýr að COVID-19 göngudeild er það ósk okkar að einstaklingar með ígrætt nýra sem hafa greinst með Covid-19 t.d. á heimaprófi eða hraðprófi snúi sér til göngudeilda nýraígræðslu. Göngudeild nýraígræðslu hafur milligöngu um að koma einstaklingum ýmist beint til göngudeildar COVID eða þau hlutast til um að tekið sé PCR. Þegar það er jákvætt fær viðkomandi skilaboð um Heilsuveru þar sem einkenna spurningum er svarað. Sjúklingar með ígræði koma þá fram á lista sem verður tilefni símtals frá göngudeild COVID-19.
Eftir mat starfsmanns göngudeildar Covid-19 getur verið að einstakling sé boðin skoðun og íhlutandi meðferð. Slíkt byggir á mati viðkomandi læknis.
Helsta íhlutun núna er gjöf lyfsins Remdesivir sem dregur úr líkum á alvarlegum veikindum. Sértæk mótefni sem áður voru gefin (Sotrovimab) duga ekki á þau afbrigði sem geysa nú.
Nýrnafélagið og Lyfja í samvinnu á Nýrnadaginn þann 10. mars
Í tilefni af Nýrnadeginum þann 10. mars býður Lyfja upp á fría blóðþrýstingsmælingu
í lyfjaverslunum sínum í Smáralind og Lágmúla. Einnig gefur hún 15% afslátt
af öllum blóðþrýstingsmælum. Ert þú búinn að tékka á blóðþrýstngnum?
Hár ómeðhöndlaður blóðþrýstingur er aðalorsök nýrnabilunar á lokastigi.
Aðalfundur Nýrnafélagsins verður haldinn 10. mai
Fundurinn verður haldinn 10. maí næstkomandi að Hátúni 10 kl. 17.00.
Dagskrá:
Setning fundarins
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Lestur fundargerðar síðasta aðalfundar
Skýrsla stjórnar
Endurskoðaður ársreikningur félagsins lagður fram, skýrður og afgreiddur
Endurskoðaður ársreikningur styrktarsjóðsins lagður fram, skýrður og afgreiddur
Skýrslur starfshópa
Lagabreytingar
Kosning stjórnar
Kosning skoðunarmanna reikninga, tveggja aðalmanna og eins varamanns
Ákvörðun um árgjald
Önnur mál
Eftirfarandi lagabreytingar verða lagðar fyrir aðalfundinn:
- lagabreyting.
Fyrsta málsgrein 5. greinar er í dag: „Allir skuldlausir félagar sem eru lögráða geta boðið sig fram í stjórn“ verður: „Félagsmenn sem eru skuldlausir við Nýrnafélagið og eru lögráða geta boðið sig fram í stjórn“.
2. lagabreyting.
Innskot sem sem ekki er fyrir hendi í dag en verður fimmta málsgrein 5. greinar og hljóðar svo:,, Firma ritar formaður“.
Runólfur Pálsson nýrnalæknir nýr forstjóri Landspítala
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára.
Ákvörðun ráðherra er tekin að undangengnu mati lögskipaðrar hæfnisnefndar sem mat Runólf meðal þeirra umsækjenda sem hæfastir þóttu til að gegna embættinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Rannsókn á reynslu einstaklinga á aldrinum 25-55 ára af því að vera maki langveiks einstaklings.
Kynningarbréf til þátttakenda í rannsókninni
“Reynsla einstaklinga á aldrinum 25-55 ára af því að vera maki langveiks einstaklings”
Ágæti viðtakandi
Undirrituð er leiðbeinandi Guðbjargar Guðmundsdóttur meistaranema við Háskólann á Akureyri. Tilefni bréfsins er að óska eftir þátttöku þinni í rannsókn á reynslu einstaklinga 25-55 ára af því að vera maki langveiks einstaklings sem er hluti af lokaverkefni Guðbjargar til meistaragráðu í heilbrigðisvísindum. Leiðbeinandi auk mín er Sonja Stelly Gústafsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri.
Markmið rannsóknarinnar
Reynsla maka langveikra hefur verið lítið rannsökuð á Íslandi, en samkvæmt erlendum rannsóknum getur sú reynsla haft víðtæk áhrif á daglegt líf og líðan. Tilgangur rannsóknarinnar er að fá upplýsingar um reynslu maka langveikra. Niðurstöður koma til með að auka þekkingu á málefninu og verða nýttar til fræðslu.
Þátttakendur og skilyrði fyrir þátttöku
Þátttakendur eru einstaklingar á aldrinum 25-55 ára sem eru makar langveikra einstaklinga. Önnur skilyrði eru að tvö ár séu liðin frá sjúkdómsgreiningu maka og að þátttakandi sé í launaðri vinnu.
Hvað felst í þátttöku og birting niðurstaðna
Tekið verður eitt viðtal við þig á þeim stað sem hentar þér best, eins er í boði að viðtalið fari fram í gegnum fjarfundarforrit eins og Teams eða ZOOM. Rannsóknarniðurstöður verða birtar í meistaraverkefni og í tímaritsgrein.
Úrvinnsla gagna
Viðtalið tekur um það bil klukkustund. Viðtalið verður hljóðritað, afritað orðrétt og öll gögn meðhöndluð sem trúnaðargögn samkvæmt íslenskum lögum varðandi persónuvernd, vinnslu og eyðingu gagna. Í afrituninni verður nöfnum og staðháttum breytt svo ekki sé unnt að rekja niðurstöður rannsóknarinnar til ákveðinna einstaklinga. Að rannsókn lokinni verður öllum frumgögnum eytt.
Réttur til að hafna eða hætta þátttöku
Þér ber engin skylda til að taka þátt í rannsókninni og getur hætt í rannsókninni hvenær sem er án útskýringa og án nokkurra afleiðinga fyrir þig. Þú getur einnig sleppt því að svara þeim spurningum sem þú vilt ekki svara. Það er hins vegar mikilvægt fyrir rannsóknina að sem flestum spurningum sé svarað.
Hafir þú spurningar, eða ef þú vilt koma á framfæri athugasemdum eða kvörtunum í tengslum við rannsóknina er þér velkomið að hafa samband við undirritaðar:
Dr. Árún K. Sigurðardóttir, GSM 823-3138, tölvupóstur: arun@unak.is
Guðbjörg Guðmundsdóttir, GSM 852-7991, tölvupóstur: ha180627@unak.is
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi rétt þinn sem þátttakandi í rannsókninni getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Borgartúni 21, 4 hæð, 105 Reykjavík. Sími 551-7100, tölvupóstur: vsn@vsn.is
Kærar þakkir fyrir að lesa þetta bréf
Með von um góða þátttöku
______________________________
Dr. Árún K. Sigurðardóttir, prófessor
Heilbrigðisvísindasvið
Háskólinn á Akureyri
Björn Magnússon, minning
Björn Magnússon fyrrverandi formaður og stjórnarmaður Nýrnafélagsins til margra ára er látinn. Stjórn Nýrnafélagins vottar aðstandendum sína innilegustu samúð.
Mætur maður er genginn og vill stjórnin einnig tjá þakklæti sitt fyrir óeigingjarnt starf hans fyrir félagið í gegnum tíðina.