HÖFÐINGLEG GJÖF

Áslaug Helga Alfreðsdóttir sem býr í Grímsey hélt upp á sextugsafmælið sitt 13. nóvember 2008. Hún afþakkaði blóm og gjafir en gaf gestum sínum kost á að styrkja Félag nýrnasjúkra. Grímseyingar voru sannkallaðir höfðingingjar því upp úr bauknum komu 60.000 krónur sem Áslaug lagði inn á reikning félagsins og ætlar féð upp í andvirði æfingjahjólanna sem félagið gaf á skilunardeildina. 

Stjórn félagsins þakkar Áslaugu þennan einstaka hlýhug til félagsins og Grímseyingum fyrir höfðingsskapinn. 

Æfingahjól

Afmælisgjöf á skilunardeild

Tvö æfingahjól hafa verið pöntuð og verða gefin á skilunardeildina. Hjólin eru af gerðinni MOTOmed letto2 og eru sérhönnuð fyrir fólk í blóðskilun. 

MOTOmed letto2 -hjólin eru framleidd hjá fyrirtækinu Reck sem er þýskt fjölskyldufyrirtæki sem hefur selt Motomed æfingahjól frá 1981. Fyrirtækið  er leiðandi á þessum markaði og er hugmyndin að æfingahjóli með hjálparmótor frá þeim komin. Nú er MOTOmed eina framleiðsluvara Reck og sífelt er unnið að þróun  og endurbótum. Nýjasta MOTOmed hjólið er Letto2 sem sérhannað fyrir fólk í blóðskilun. 

MOTOmed er æfingahjól með öflugum hugbúnaði og næmum skynjurum. Hjólið er búið spasmavörn þ.e. skynjarar nema spasma og þá stöðvast hjólið og fer að snúast afturábak til að brjóta niður spasmann. Sérstök stilling: Servo cycling virkar eins og átaksstýri í bíl, það er mjög létt að stíga hjólið.Á skjánum má sjá af hve miklum krafti er hjólað hægra og vinstra megin.  

Í bæklingnum um MOTOmed letto2 segir m.a.:

Fólk með lokastigsnýrnabilun býr við skert lífsgæði sem m.a. stafa af aukaverkunum vegna þeirra úrgangsefna sem safnast upp í líkamanum. Það er t.d. hár blóðþrýsingur og minna þrek.

Með því nota reglulega æfingahjól hluta þess tíma sem viðkomandi er í blóðskilun er m.a. stuðlað að:

  • meira þreki og betra líkamsástandi
  • betra blóðflæði sem dregur úr hættu á blóðþrýstingsfalli og eykur gæði skilunar
  • liðkar fætur 

Með þessu æfingahjóli getur notandi æft sig án aðstoðar.

SMART MOTION NÁMSKEIÐ

HEILSUHÓPURINN BÝÐUR Á 

SMART MOTION NÁMSKEIÐ

Smart Motion hlaupastílsaðferðin leiðbeinir þér að hlaupa með minna álagi á fætur, liði og mjóbak. Með þessari aðferð lærir þú að hlaupa á léttari og skynsamari máta að hætti Afríkumanna. 

Smart Motion hlaupastíllinn er jafnt fyrir byrjendur og vana langhlaupara. Aðferðin fjallar um að hlaupa með betri líkamsstöðu, betri líkamsbeitingu, minna höggálagi og hvernig við getum slakað á fleiri vöðvum á meðan við hlaupum. 

Það er Smári Jósafatsson sérfræðingur í Smart Motion aðferðinni sem mun leiðbeina þátttakendum. 

Námskeiðið fer fram miðvikudaginn 8. október og hefst klukkan 17:30 og stendur í 2 ½ klst. 

Mætið tímanlega á bílastæðið fyrir neðan KFUM/K húsið við Holtaveg. 

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því þarf að tilkynna þátttöku í síma félagins 561-9244 eða á nyra@nyra.is ekki síðar en mánud. 6. okt.   

Miðvikudagarnir fram að námskeiði eru “venjulegir” dagar. Reykjavíkurmaraþon Glitnis 2008 er líðið en það kemur annað næsta ár! 

HEILSUHÓPURINN ER Í FULLU FJÖRI!

SKILUNARDEILDIN 40 ÁRA

Þann 15. ágúst 2008 voru nákvæmlega fjörtíu ár síðan fyrsta blóðskilunin var framkvæmd á Íslandi. Þeir eru orðnir margir einstaklingarnir sem hafa öðlast lengra líf með því að eiga kost á skilunarmeðferð eftir að nýrun þeirra urðu óstarfhæf. 

Stjórn félagsins fagnaði þessum merka áfanga á skilunardeildinni með þremur tertuboðum – einu fyrir hvern hóp í blóðskilun og þá starfsmenn sem voru á vakt. Þrjár 25 manna, gómsætar marenstertur voru pantaðar frá Reyni bakara og félagar úr stjórn og Tengslahópi skáru terturnar og báru til afmælisgesta.

Nýr bæklingur

Ef nýrun gefa sig
– kynningarbæklingur félagsins endurútgefinn – 

Í sumar hefur kynningarbæklingur félagsins “Ef nýrun gefa sig” verið endurskoðaður. Hann kom út í júlímánuði og hefur nú þegar verið dreift á yfir 80 heilsugæslustöðvar á landinu. Bæklingurinn er yfirgripsmikill og m.a. er í honum greinargóð lýsing á meðferðarúrræðum við nýrnabilun. Einnig er sagt frá Tengslahópi nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra. Forsíðuna prýðir mynd af holtasóley og var Hörður Kristinsson grasafræðingur svo vinsamlegur að gefa okkur myndina til birtingar á bæklingnum. Systursamtök félagsins í Danmörku leyfðu fúslega notkun á skýringarmynd af nýrum. Bæklinginn er hægt að skoða undir “Fræðsluefni”. Hafið samband við félagið ef þið óskið eftir að fá bæklinginn sendan. 

Málþing

Þann 10. maí 2008. var haldið málþing á vegum Landspítala og Tryggingastofnunar um heilsuhagfræðilega þætti nýrnaígræðslu á Íslandi. 

Karl Steinar Guðnason forstjóri TR opnaði ráðstefnuna með ávarpi. Hann ræddi m.a. um samskipti fjármálavalds, TR og Landspítala og sagði þau oft hafa einkennst af takmarkaðri framtíðarsýn. Hann sá mikinn ávinning í lögum sem heimila þessum tveimur stóru stofnunum, Tryggingarstofnun og Landspítala, að semja sín á milli. 

Þá talaði Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á LSH og ræddi meðferð við lokastigsnýrnabilun á Íslandi og sérstaklega þátt nýrnaígræðslna. Í erindi hans kom m.a. fram að í vor var 25. ígræðslan framkvæmd hér á landi. Runólfur taldi upp helstu vörður á leið Íslendinga í meðferð við nýrnabilun á lokastigi. Skilun hófst hér á landi 1968 og fyrsta ígræðslan á nýra í Íslending fór fram í London 1970. Nýrað var úr lifandi gjafa og lifir nýraþeginn enn. Það er síðan í desember 2003 sem nýrnaígræðslur hefjast á Íslandi. Áður hafði verið samið við hin ýmsu sjúkrahús í öðrum löndum og síðast við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og þar eru enn framkvæmdar ígræðslur nýrna úr látnum gjöfum í Íslendinga. Fram kom að veruleg aukning hefur orðið á nýrnaígræðslum frá því aðgerðirnar hófust á LSH og má nefna að árin 2005 og 2006 voru alls gerðar 29 ígræðslur, 20 frá lifandi gjöfum og 9 frá látnum gjöfum. Runólfur gat sértaklega Jóhanns Jónssonar sérfræðings sem starfar við líffæraígræðslur í Virginia í Bandaríkjunum en hann kemur hingað þrisvar á ári og framkvæmir aðgerðir á Íslendingum. Runólfur ræddi framtíðina og hve mikilvægt að búa vel að öllum þáttum nýrnaígræðslna á Íslandi og einnig sagði hann að tímabært væri að skoða möguleika á að hér landi yrðu einnig gerðar ígræðslur nýrna úr látnum gjöfum. 

Á eftir Runólfi talaði Jórunn Sörensen sem kallaði erindi sitt “Nýja nýrað mitt breytir öllu”. Titillinn segir í raun allt sem segja þarf en hún líkti því að fá nýra m.a. við að hafa fengið líkamlegt og andlegt frelsi í stað lífs sem var niðurnjörvað að blóðskilunardögunum. Hún ræddi einnig hve mikið frelsi það er fyrir manninn hennar að hafa hana heilbrigða því fáir gera sér fulla grein fyrir því hve mikil skerðing það er á lífsgæðum þegar makinn er langveikur. 

Síðasta erindið var hagfræðileg úttekt á lokastigsnýrnabilun sem Tinna Laufey Ásgeirsdóttir umsjónarmaður meistaranáms í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands flutti. Tinna fór ítarlega í gegnum alla þætti meðferðar við nýrnabilun út frá tölfræðilegri hagkvæmni. Eins og ljóst má vera birtast háar tölur á tjaldinu hvort sem rætt er um kostnað við skilunarmeðferð eða ígræðslu. Niðurstaðan er í örstuttu máli sú að ígræðsla hefur borgað sig eftir tvö ár á móti skilun. 

Í lokin tók fundarstjóri Eiríkur Jónsson yfirlæknir nýrnaskurðlækninga á LSH saman helstu niðurstöður og stjórnaði umræðum.