Haustfagnaður félagins

Haustfagnaður félagins 
var haldinn 14. október 2010 í salnum á 9. hæð í Hátúni 10. 
Í stuttu máli tókst skemmunin afbragðsvel. Félagar fjölmenntu og tóku með sér gesti.

Járnkarlinn! Eftir Oddgeir Gylfason

Sæl verið þið!
Oddgeir heiti ég og ég er með ígrætt nýra. Kjartan bróðir minn gaf mér nýra í júní 1999 á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Aðgerðin gekk eins og best verður á kosið og nýrað hefur virkað vel þessi 11 ár sem liðin eru síðan. Ég hóf að æfa hlaup 2 árum síðar og til að gera langa sögu stutta, þá hljóp ég mitt fyrsta maraþon (42,2km) vorið 2005 í London. Það var stórkostleg upplifun og mikill sigur fyrir mig að geta þetta. Í kjölfar þessa skoraði ég á Kjartan bróður minn að hlaupa með mér Kaupmannahafnarmaraþon vorið eftir og lét hann slag standa og við hlupum í Köben vorið 2006. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem bærast innra með manni við þessar aðstæður, þarna vorum við þegi og gjafi að hlaupa maraþon saman á sömu slóðum og aðgerðin hafði verið gerð nokkrum árum áður.

Ég sleit krossband í hné þetta sumar og var frá vegna þess í 3 ár, eða allt fram á haust 2009, þá var nóg komið af leti, hóglífi og lélegu líkamsástandi! Nú skyldi tekið á því og stefnan sett á Ironman sem er þríþrautarkeppni, sund 3,8 km í sjó, hjól 180 km og hlaup 42,2 km. Og já, þetta er allt tekið í einum rykk! Þetta yrði fimmtugs afmælisgjöfin mín í ár. Ef ég hefði vitað hversu langur og strangur undirbúningurinn er fyrir svona þrekraun, er óvíst að ég hefði gert þetta. Ég æfði stíft í 10 mánuði, jók smám saman æfingaálagið, fór á sundnámskeið til að læra skriðsund, keypti sérstakan blautbúning til að synda í, keypti sérhannað þríþrautarhjól og æfði 12 til 17 klst á viku. Þetta var magnað ferðalag og ég kynntist mörgu frábæru fólki sem stefndi á sömu keppni. Við æfðum oft saman, skiptumst á upplýsingum og peppuðum hvort annað upp þegar þess þurfti. Svo má ekki gleyma nánustu fjölskyldu sem sýndi mikinn stuðning og þolinmæði á undirbúningstímabilinu, því allar helgar á þessu ári hafa farið í stífar æfingar, 5-7 klst á laugardögum og 3-4 á sunnudögum . Einu frídagarnir voru mánudagar! Svo þarf víst að vinna eitthvað líka. 

Dóttir mín og nýfæddur dóttursonur komu að hvetja afa!

Keppnin þann 15. ágúst:

Daginn fyrir rigndi alveg rosalega í Köben, allar götur fylltust af vatni og vatn flæddi upp úr niðurföllum og meðal annars inn í húsnæðið sem við gistum í ásamt fleiri keppendum. Þetta átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir marga keppendur, því talið er að klóaki hafi skolað upp á land við þetta og sjórinn sem við syntum í morguninn eftir var mengaður. Vitað er um 600 keppendur sem hafa veikst eftir þetta, með niðurgang og slappleika. Ég með mína ónæmisbælingu fann ekki fyrir neinu!!

Ræst var í sundið í hollum, 250 til 300 í einu og ég var í síðast hollinu. Það gengur mikið á þegar allir hlaupa útí í einu og barist um pláss en jafnframt „hófleg“ tillitssemi. Mér leið vel í sundinu, synti á 1 klukkustund og 7 mínútum þessa 3,8 km. Ekkert mál, enda vel undirbúinn. Þá var að skipta yfir á hjólið, en ég var í hjólabúningnum undir blautbúningnum svo það er bara af fara í sokka, hjólaskó og setja á sig hjálminn. Hjólin voru geymd á séstökum stæðum eftir keppnisnúmeri. 
Veðrið var orðið mjög gott, hlýtt en skýjað, hjólaðir voru tveir 90 km hringir, ákaflega falleg leið um Sjáland og eftir að hafa barist í mótvindi og brekkum allar helgar á Íslandi var þetta eins og himnaríki hjólarans! Ég brosti allan hringinn, allan tímann, nema þegar sprakk hjá mér, en það tafði mig nokkuð að skipta um slöngu og pumpa í. En ég var með allt til reiðu ef spryngi, og búinn að æfa skiptingu heima. Ég drakk mikinn vökva með sykri og söltum á hjólinu, tók salttöflur og borðaði orkustangir, snikkers og orkugel. 

Mikilvægt er að nærast eins og hægt er á hjólinu því maður borðar ekki fasta fæðu í hlaupinu. Talið er að maður eyði um 12000 hitaeiningum í svona keppni.Ég hélt um 30 km meðalhraða eins og planað var og kláraði hjólið á 6 klukkustundum og 15 mínútum. Ekkert mál!

Skiptingin frá hjóli yfir í hlaup tók mig bara 1 mínútu og 57sekúndur ég var í adrenalín rússi og æddi af stað í maraþonið. Það er mjög skrítið að hlaupa eftir svona langan hjólatúr. Lappirnar ekki alveg með á nótunum fyrstu kílometrana. Hlaupnir voru þrír 14 km hringir í miðri Kaupmannahöfn þannig að ég var að mæta félögum mínum og hitti oft á stuðningsliðið mitt, en í því var nánasta fjölskylda og vinir, um 20 manns. 

Nú fór þetta að þyngjast, sólin farin að skína og hitinn kominn í 25 stig. Ég var búinn að plana að hlaupa hvern kílometra á 6 mínútum og gekk það nokkuð eftir. Þetta var fjandanum erfiðara einkum síðasti hringurinn, lærin á mér voru alveg frosin og ég vissi að ef ég færi að labba væri þetta búið. En hausinn var í lagi og ég fór þetta á þrjóskunni og hvatningu fjölskyldunnar. Ég hljóp græna dregilinn í mark með 2 litla frænkur mér við hlið og tilfinningin að klára þetta var dásamleg, öll þessi vinna að skila árangri og tíminn betri en ég hafði þorað að vona, 11 klukkustundir og 51 mínúta.

Ég hugsaði vel um nýrað mitt dýrmæta, drakk mikið allan tímann og tók salttöflur. En eftir á að hyggja klikkaði ég aðeins á saltinntökunni í hlaupinu þannig að eftir að ég kom í mark leið ég næstum útaf, enda með 80/60 í blóðþrýsting! 1 líter af saltvatni í æð hressti mig fljótt við. Ég hefði ekki farið út í þetta ef ég hefði verið að hætta nýranu, ég treysti Runólfi Pálssyni nýrnalækni þegar hann gaf grænt ljós á þetta. 

Það að setja sér markmið í lífinu og þurfa að hafa fyrir því að ná þeim, gefur lífinu gildi. Maður er það sem maður hugsar og ég, þrátt fyrir að hafa verið nýrnasjúklinur alla mína æfi, hef aldrei litið á mig sem sjúkling. Ég hef líka reynt að horfa á það jákvæða í mínum veikindum og vinna út frá því. 

Vona að þið hafið haft gaman af lestrinum og að þetta verði einhverjum hvatning til að fara að hreyfa sig, því við berum jú ábyrgð á eigin lífi og það að stunda líkamsrækt er gott fyrir líkama og sál.

Oddgeir Gylfason

Takk fyrir okkur!

Stjórn Félag nýrnasjúkra þakkar af heilum hug öllum þeim sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og söfnuðu áheitum til stuðnings starfi félagsins. 
Fénu verður varið til gerðar mynddiska af fræðslumyndinni Ef nýrun gefa sig.

VORFERÐIN fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa

Vorferðin var farin laugardaginn 15. maí 2010. Haldið var af stað frá Hátúninu á slaginu 13:00 og ekið rakleitt austur að Þjórsá með viðkomu á Selfossi þar sem Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur bættist í hópinn. Þessa stuttu leið yfir Hellisheiðina fræddi Björn Jónsson fararstjóri okkur um myndun þess lands sem við ókum yfir og framhjá, á einstaklega skemmtilegan hátt. Ekið var að Urriðafossi og hann skoðaður. Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins þótt því trúi ekki allir þar sem fossinn er ekki hár. Þennan foss þekkja allt of fáir þótt hann sé steinsnar frá þjóðveginum.
Áfram var ekið niður með Þjórsá og þaðan í vestur fram hjá Baugstaðabúinu og Knarrarósi. Ekið var í gegnum bæina Stokkseyri og Eyrarbakka þar sem við fræddumst um merk hús – bæði stór og smá. Minnsti mannabústaðurinn var Þuríðarbúð sem við skoðuðum. Síðan lá leiðin í Friðlandið í Flóa. Það vakti athygli og aðdáun okkar hve Fuglaverndarfélagið hefur unnið gott starf með því að endurheimta votlendi og koma upp friðlandi fyrir fugla. Það er strax farið að skila sér í stórauknum fjölda fuglategunda og fjölda innan tegunda. Ekki man ég hve mörg lómapör Jóhann Óli sagði að verptu núna í Friðlandinu. Þarna er líka búið að koma upp fuglaskoðunarhúsi – afbragðsaðstöðu til þess að skoða fugla og sáum við lómapar á tjörn sem var lítið hrifið þegar álft settist á vatnið hjá þeim.

Nú vorum við orðin bæði svöng og kaffiþyrst og hlaðborðinu í Rauða húsinu á Eyrarbakka því tekið fagnandi. Þar sátum við í rólegheitum drjúga stund og var stöðugt bætt á veisluföngin eftir því sem á þau gekk. Hjördís Guðmundsdóttir bauð okkur að skoða kirkjuna sem við gerðum um leið og við fórum aftur í rútuna og ókum heim á leið. Ánægð eftir skemmtilegt og fróðlegt síðdegi kvöddumst með virktum í ferðalok. Það var Björn Jónsson leiðsögumaður sem skipulagði ferðina.

Nýtt í starfi félagsins.

Nýlega hóf Lilja Kristjánsdóttir að kalla saman ungt fólk með alvarlegan nýrnasjúkdóm í það sem hún kallar KAFFIHÚSAHITTING. Fundirnir eru óformlegir og þar getur fólk spjallað og deilt reynslu sinni. Þótt ekki sé komin löng reynsla á fundina hafa þeir sannarlega sýnt að þeirra er þörf. Nánari upplýsingar veitir Lilja í síma 899 3151.

Aðalfundur félagsins 2010

Vel var mætt á aðalfund félagsins sem haldinn  var 24. mars sl. Áður en fundurinn hófst var sýnd myndin Ef nýrun gefa sig – fræðslumynd um meðferð nýrnabilunar. Myndina lét félagið framleiða og verður hún sýnd fljótlega í sjónvarpinu. Síðar mun hún einnig verða aðgengileg á heimasíðu félagsins. Það er mikið stórvirki fyrir lítið félag að láta búa til slíka mynd og þar lögðu margir hönd á plóg. 

Í myndinni er öllum þáttum meðferðar við nýrnabilun gerð skil – kviðskilun, blóðskilun og ígræðslu nýra bæði með faglegum útskýringum og viðtölum við fólk sem þekkir hverja meðferð fyrir sig. Það er von stjórnarinnar að myndin verði gagnleg öllum þeim sem vilja fræðast um meðferð nýrnabilunar. 

Stjórn félagsins skipa nú: Jórunn Sörensen formaður. Aðrir í stjórn eru: Hallgrímur Viktorsson, Jóhanna G. Möller, Ívar Pétur Guðnason, Margrét Haraldsdóttir. Varamenn eru: Magnús Sigurðsson og Lilja Kristjánsdóttir. 

Skýrsla stjórnarinnar verður birt á heimasíðu félagsins

Annað líf

Fræðslumyndin um líffæragjafir á Íslandi Annað líf er komin á vef Landlæknisembættisins og þar hefur jafnframt verið stofnuð vefsíða um líffæragjafir.

Slóðin er: http://www.landlaeknir.is/?pageid=1499&nc=1

Fólk er hvatt til þess að skoða myndina og kynna sér efni síðunnar sem er bæði fróðlegt og mjög mikilvægt.

Runólfur Pálsson yfirlæknir fimmtugur

Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum var fimmtugur 25. desember 2009. Að því tilefni bað stjórn Félags nýrnasjúkra Gunnar Karlsson skopmyndateiknara að teikna mynd af honum. Runólfi var síðan færð myndin á milli jóla og nýárs með innilegum hamingjuóskum með afmælið og þökk fyrir traust samstarf. 

Jólagleði félagsins

Jólagleði félagsins var haldin síðdegis sunnudaginn 6. desember.Stórt lifandi jólatré stóð tilbúið í salnum þegar gestirnir mættu og börnin skreyttu það. Jólasveinar komu í heimsókn og sungu með börnunum. Hans Guðberg Alfreðsson prestur flutti hugvekju. Nóg var af góðu meðlæti með kaffinu og gestir áttu notalega stund saman.

Þegar jólagleði félagsins var lokið var tréð flutt niður í setustofu heimilisfólks í Hátúni þar sem það sómdi sér vel fram yfir jól.

FRÉTTIR FRÁ BASARNUM

Basarinn sem félagið hélt í Kringlunni, laugardaginn 14. nóvember 2009, heppnaðist einstaklega vel. Hinar vönduðu og góðu vörur sem basarhópurinn og fleiri félagsmenn höfðu búið til, hvort sem var heimasaumað, prjónað eða heklað ásamt öllu gómsæta bakkelsinu seldist nánast alveg upp. Í kassann kom dágóð summa sem rennur óskipt upp í gerð fræðslumyndar um meðferð nýrnabilunar sem félagið er að láta gera. Einnig var mikilvæg sú kynning á félaginu sem þarna fór fram.

Enn er umræðan um líffæragjafir lítil hér á landi. Félagar dreifðu mörg hundruð líffæragjafabæklingum þennan dag og útskýrðu og fræddu fólk um hvað í því felst að skrá sig sem líffæragjafa.