Komugjöld á skilunardeild afnumin

Stjórn Félags nýrnasjúkra fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að afnema svokölluð dagdeildargjöld sem lögð voru á 1. janúar 2009. Neðangreint er af heimasíðu ráðuneytisins: 

Með afnámi dagdeildargjaldsins, sem var nýtt gjald sem fyrsta sinni var innheimt af sjúklingum sem sóttu sér heilbrigðisþjónustu á dagdeildum sjúkrahúsa, vildi ráðherra koma til móts við óskir Félags nýrnasjúkra og afnema íþyngjandi gjöld á geðsjúka, sem höfðu áður ekki greitt vegna tíðra koma á dagdeildir. „Þessi nýi tekjustofn, sem forveri minn fann, var alveg ótrúlegur þegar haft er í huga hvaða sjúklingahópa var farið að rukka. Þetta voru nýrnasjúkir, sem þurftu í blóðskilun, þetta voru geðsjúkir sem þurftu mjög á dagdeildarþjónustu að halda og þetta var fólk sem var í stífri endurhæfingu eftir alvarleg slys eða meiriháttar sjúkdóma. Óverjandi að leggja svona gjöld á afmarkaðan hóp“, segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.

Reglugerðin tekur gildi 1. apríl 2009.

ALÞJÓÐLEGI NÝRNADAGURINN

12. mars 2009 er ALÞJÓÐLEGI NÝRNADAGURINN (worldkidneyday.org) haldinn hátíðlegur um allan heim.

Deginum er ætlað að hvetja fólk til þess að huga að mikilvægi nýrnanna.

Náttúran var örlát þegar hún úthlutaði manninum nýrum því minna en eitt nýra getur nægt fullorðnum manni. Engu að síður eru nýrun mjög viðkvæm og að þessu sinni bendir alþjóðlegi nýrnadagurinn sérstaklega á hættuna sem nýrunum og einnig öllu æðarkerfinu stafar af of háum blóðþrýstingi. 

Hópur um líffæragjafir á Facebook

Stofnaður hefur verið hópur á fésbókinni um málefnið líffæragjafir. Hver og einn íbúi á fésbók er hvattur til þess að kynna sér hópinn – og gerast meðlimur.

Ræðum málið í hópnum um líffæragjafir á fésbókinni. 

Jólagleði félagsins

Jólagleði félagsins var haldin sunnudaginn 7. desember 2008. Þetta var ánægjuleg stund og áttu óperusöngvararnir Stefán H. Stefánsson og Davíð Ólafsson ásamt píanóleikaranum Helga Hannessyni stóran þátt í því.

SAMSTARF nýrnasjúkra og sykursjúkra

Stjórnir Félags nýrnasjúkra og Samtaka sykursjúkra hafa ákveðið að ganga til samstarfs á sviði fræðslu og heilsueflingar. 
Samtök sykursjúkra hafa GÖNGUHÓP sem Eygló Helga stjórnar og nú eru allir nýrnasjúkir og aðstandendur þeirra hjartanlega velkomnir í hópinn eins og sykursjúkir og aðstandendur þeirra eru velkomnir með HEILSUHÓPNUM í Laugardalinn á miðvikudögum.

Listi yfir gönguferðir má sjá undir: HEILSUEFLING FÉLAGS NÝRNASJÚKRA OG SAMTAKA SYKURSJÚKRA í tilkynninga dálki.

HÖFÐINGLEG GJÖF

Áslaug Helga Alfreðsdóttir sem býr í Grímsey hélt upp á sextugsafmælið sitt 13. nóvember 2008. Hún afþakkaði blóm og gjafir en gaf gestum sínum kost á að styrkja Félag nýrnasjúkra. Grímseyingar voru sannkallaðir höfðingingjar því upp úr bauknum komu 60.000 krónur sem Áslaug lagði inn á reikning félagsins og ætlar féð upp í andvirði æfingjahjólanna sem félagið gaf á skilunardeildina. 

Stjórn félagsins þakkar Áslaugu þennan einstaka hlýhug til félagsins og Grímseyingum fyrir höfðingsskapinn. 

Æfingahjól

Afmælisgjöf á skilunardeild

Tvö æfingahjól hafa verið pöntuð og verða gefin á skilunardeildina. Hjólin eru af gerðinni MOTOmed letto2 og eru sérhönnuð fyrir fólk í blóðskilun. 

MOTOmed letto2 -hjólin eru framleidd hjá fyrirtækinu Reck sem er þýskt fjölskyldufyrirtæki sem hefur selt Motomed æfingahjól frá 1981. Fyrirtækið  er leiðandi á þessum markaði og er hugmyndin að æfingahjóli með hjálparmótor frá þeim komin. Nú er MOTOmed eina framleiðsluvara Reck og sífelt er unnið að þróun  og endurbótum. Nýjasta MOTOmed hjólið er Letto2 sem sérhannað fyrir fólk í blóðskilun. 

MOTOmed er æfingahjól með öflugum hugbúnaði og næmum skynjurum. Hjólið er búið spasmavörn þ.e. skynjarar nema spasma og þá stöðvast hjólið og fer að snúast afturábak til að brjóta niður spasmann. Sérstök stilling: Servo cycling virkar eins og átaksstýri í bíl, það er mjög létt að stíga hjólið.Á skjánum má sjá af hve miklum krafti er hjólað hægra og vinstra megin.  

Í bæklingnum um MOTOmed letto2 segir m.a.:

Fólk með lokastigsnýrnabilun býr við skert lífsgæði sem m.a. stafa af aukaverkunum vegna þeirra úrgangsefna sem safnast upp í líkamanum. Það er t.d. hár blóðþrýsingur og minna þrek.

Með því nota reglulega æfingahjól hluta þess tíma sem viðkomandi er í blóðskilun er m.a. stuðlað að:

  • meira þreki og betra líkamsástandi
  • betra blóðflæði sem dregur úr hættu á blóðþrýstingsfalli og eykur gæði skilunar
  • liðkar fætur 

Með þessu æfingahjóli getur notandi æft sig án aðstoðar.

SMART MOTION NÁMSKEIÐ

HEILSUHÓPURINN BÝÐUR Á 

SMART MOTION NÁMSKEIÐ

Smart Motion hlaupastílsaðferðin leiðbeinir þér að hlaupa með minna álagi á fætur, liði og mjóbak. Með þessari aðferð lærir þú að hlaupa á léttari og skynsamari máta að hætti Afríkumanna. 

Smart Motion hlaupastíllinn er jafnt fyrir byrjendur og vana langhlaupara. Aðferðin fjallar um að hlaupa með betri líkamsstöðu, betri líkamsbeitingu, minna höggálagi og hvernig við getum slakað á fleiri vöðvum á meðan við hlaupum. 

Það er Smári Jósafatsson sérfræðingur í Smart Motion aðferðinni sem mun leiðbeina þátttakendum. 

Námskeiðið fer fram miðvikudaginn 8. október og hefst klukkan 17:30 og stendur í 2 ½ klst. 

Mætið tímanlega á bílastæðið fyrir neðan KFUM/K húsið við Holtaveg. 

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því þarf að tilkynna þátttöku í síma félagins 561-9244 eða á nyra@nyra.is ekki síðar en mánud. 6. okt.   

Miðvikudagarnir fram að námskeiði eru “venjulegir” dagar. Reykjavíkurmaraþon Glitnis 2008 er líðið en það kemur annað næsta ár! 

HEILSUHÓPURINN ER Í FULLU FJÖRI!

SKILUNARDEILDIN 40 ÁRA

Þann 15. ágúst 2008 voru nákvæmlega fjörtíu ár síðan fyrsta blóðskilunin var framkvæmd á Íslandi. Þeir eru orðnir margir einstaklingarnir sem hafa öðlast lengra líf með því að eiga kost á skilunarmeðferð eftir að nýrun þeirra urðu óstarfhæf. 

Stjórn félagsins fagnaði þessum merka áfanga á skilunardeildinni með þremur tertuboðum – einu fyrir hvern hóp í blóðskilun og þá starfsmenn sem voru á vakt. Þrjár 25 manna, gómsætar marenstertur voru pantaðar frá Reyni bakara og félagar úr stjórn og Tengslahópi skáru terturnar og báru til afmælisgesta.

Nýr bæklingur

Ef nýrun gefa sig
– kynningarbæklingur félagsins endurútgefinn – 

Í sumar hefur kynningarbæklingur félagsins “Ef nýrun gefa sig” verið endurskoðaður. Hann kom út í júlímánuði og hefur nú þegar verið dreift á yfir 80 heilsugæslustöðvar á landinu. Bæklingurinn er yfirgripsmikill og m.a. er í honum greinargóð lýsing á meðferðarúrræðum við nýrnabilun. Einnig er sagt frá Tengslahópi nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra. Forsíðuna prýðir mynd af holtasóley og var Hörður Kristinsson grasafræðingur svo vinsamlegur að gefa okkur myndina til birtingar á bæklingnum. Systursamtök félagsins í Danmörku leyfðu fúslega notkun á skýringarmynd af nýrum. Bæklinginn er hægt að skoða undir “Fræðsluefni”. Hafið samband við félagið ef þið óskið eftir að fá bæklinginn sendan.