Fundur á Akureyri

Félag nýrnasjúkra hélt fund á Akureyri 9. júní 2012. og var hann vel sóttur. Fundurinn var haldinn á veitingahúsinu Greifanum og boðið upp á súpu, salat og brauð. Á fundinn mættu Jórunn Sörensen formaður og Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir framkvæmdastjóri. 

Jórunn kynnti starf félagsins og þau fjölbreyttu verkefni sem stjórnin fæst við. Fundarmönnum var hugleikin erfið staða nýrnasjúkra á Norðurlandi. Fram kom að þeir upplifa mikið óöryggi og óþægindi vegna þess að enginn nýrnalæknir veitir þjónustu norðan lands. En öll þjónusta við nýrnasjúkra er á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavik – bæði nýrnadeild og skilunardeild. Félagið hefur ályktað um mikilvægi þess að blóðskilunardeild verði komið upp við sjúkrahúsið á Akureyri og einnig hafa félagsmenn á Akureyri sent erindi þess efnis til sjúkrahússins. 

Sagt frá Nýrnaskóla Landspítalans en námskeið eru haldin vor og haust. Nánari upplýsingar er að finna hér á síðunni. 

Kristín óskaði eftir ábendingum frá fundarmönnum hvernig félagið gæti bætt þjónustu sína. Slíkar upplýsingar væru verðmætar við stefnumótun félagsins. Fram komu óskir um að hægt væri að fá meiri upplýsingar á heimasíðu félagsins um hvað félagið væri að gera. Kristín benti á að félagið væri einnig á Facebook. 

Rétt er að taka fram að bestu upplýsingarnar um starf félagsins er að finna í ársskýrslum félagsins hér á heimasíðunni.