Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum

Félag nýrnasjúkra hélt fræðslufund miðvikudaginn 10 apríl 2013 um hið nýja greiðsluþátttökukerfi  vegna kaupa á lyfjum.  Tveir lyfjafræðingar frá Sjúkratryggingum voru mættar til að fræða okkur. Þær Margrét Rósa Kristjánsdóttir og Guðrún Björg Elíasdóttir. Þær sögðust hafa kviðið því að hitta þennan hóp enda kæmi hann á ýmsan hátt illa út úr þessum breytingum.  Þó hafði forystu félagsins, með dyggum stuðningi Runólfs, tekist að tryggja  að skilunarsjúklingar fái frí  þau lyf sem tilheyra skiluninni.  Það þurfti mikla baráttu til að ná því fram, enda verða slíkar undantekningar teljandi á fingrum annarrar handar.

Markmiðið með þessu nýja greiðsluþátttökukerfi ,sem tekur gildi 4. maí 2013, er:Auka jafnræði með sjúklingum óháð sjúkdómum.Draga úr útgjöldum þeirra sem hafa mikil lyfjaútgjöld.Í dag er ekkert hámark á lyfjakostnaði einstaklinga.

Aðeins verður tvenns konar merking á lyfjum, annað hvort eru þau með greiðsluþátttöku eða ekki.  Í eldra kerfinu voru margvíslegar merkingar. Fjöldi lyfja sem áður voru með greiðsluþátttöku að fullu eða hluta verða nú án greiðsluþátttöku. Þá er oft möguleiki að læknir óski eftir lyfjaskírteini  fyrir viðkomandi sem leiðir til þess að lyfin falla undir greiðsluþrepin. Lyfjaskírteini vegna lyfja sem áður voru greidd að fullu af Sjúkratryggingum breytast nú í skírteini með almenna greiðsluþátttöku.

Kaupendum lyfja er skipt í tvo hópa sem ráða hvernig greiðslum sjúkratrygginga er háttað. Annars vegar eru það lífeyrisþegar, börn og ungmenni 18 – 22 ára og hins vegar aðrir (aðrir einstaklingar). Börn innan sömu fjölskyldu teljast sem einn einstaklingur.

Hámarks greiðsla „annarra einstaklings“  á 12 mánuðum, fyrir eigin lyf með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er  kr.69.415.-  sem skiptist í þrjú þrep:  af fyrstu 24.075.- greiðir einstaklingurinn að fullu, ekkert  er endurgreitt, af næstu 24.076.- til 96.300.- króna greiðir einstaklingurinn 15% en Sjúkratryggingar greiða 85%, af næstu 96.301 til 556.400.- kr. greiðir sjúklingur 7,5% en Sjúkratryggingar 92,5%. Lyfjakostnaður yfir  556.400.-  kr. er greiddur að fullu af Sjúkratryggingum. Þetta þýðir að „aðrir einstaklingar“ greiða því ekki meira en 69.415.- kr. á ári af lyfjum með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Lyf án greiðsluþátttöku kemur ekkert inn í þetta dæmi nema  að viðkomandi hafi fengið sérstakt lyfjaskírteini vegna þess.

Hámarks greiðsla lífeyrisþega, barna og ungmenna fyrir eigin lyf með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er kr. 48.149.- kr. sem skiptist í þrjú þrep: af fyrstu 16.050.- er greitt að fullu Sjúkratryggingar greiða ekkert, af næstu 16.501 til 64.200.- krónum er greitt 15% en Sjúkratryggingar greiða 85%, af næstu 64.201.- til 395.900.- kr.  er greitt 7,5% en Sjúkratryggingar greiða 92,5%. Lyfjakostnaður yfir 395.900.- kr. hjá lífeyrisþegum, börnum (systkin teljast saman sem eitt) og ungmennum er greiddur að fullu af Sjúkratryggingum.  Það þýðir að heildarkostnaður einstaklinga í þessum hópi verður að hámarki 48.149.- kr. á 12 mánuðum. Lyf án greiðsluþátttöku kemur  ekkert inn í þetta dæmi nema  að viðkomandi hafi fengið sérstakt lyfjaskírteini vegna þess.

Það má spyrja hvað leiði til þess að þessi breyting sé fjárhagslega  óhastæð fyrir nýrnasjúka. Þá er því fyrst til að svara að með því að nánast útrýma fríum lyfjum þá lenda mörg lyf sem nýrnasjúkir þurfa að nota, og voru áður frí, nú með greiðsluþátttöku. Nokkur fjöldi lyfja sem  hafa verði með greiðsluþátttöku fram til þessa, verða það ekki í framtíðinni (nema etv. með lyfjaskírteini).  Fyrsta greiðsluþrepið mun reynast mörgum erfitt. Síðan er það að ekki verður um neina greiðsludreifingu að ræða, hvorki af hálfu Sjúkratrygginga né lyfsala. Í einhverjum tilfellum er þó hægt að skipta afgreiðslum ef pakkningar leyfa.

Frekar upplýsingar  er að finna á www.sjukra.is  þar er einnig hægt að fara inn í Réttindagátt – þjónustusíðu einstaklinga og sjá í hvaða greiðsluþrepi einstaklingur er staddur hverju sinni og yfirlit yfir lyfjakaup. Innskráning fer fram með rafrænum skilríkjum, íslykli island.is eða veflykli skattyfirvalda. Réttindagáttin mun verða tilbúin fyrir lok maí.

Aðalfundur félagsins 2013

Aðalfundur Félags nýrnasjúkra var haldinn 13. mars s.l. Starf félagsins var fjölbreytt á síðasta ári og má lesa skýrslu stjórnar hér á síðunni. Jórunn Sörensen gaf ekki kost á sér til frekari formennsku og var Guðrún Þorláksdóttir kjörin í hennar stað, en formaður er kjörinn sérstaklega. Félagsmenn buðu Guðrúnu velkomna til starfa og óskuðu henni velfarnaðar. Hannes og Margrét áttu að ganga úr stjórn og gáfu kost á sér áfram. Björn Magnússon var kjörinn nýr í varastjórn. Stjórnin er þá þannig skipuð:

Guðrún Þorláksdóttir formaður 
Hallgrímur Viktorsson
Hannes Þórisson
Margrét Haraldsdóttir
Vilhjálmur Þór Þórisson
Björn Magnússon
Ursula Irena Karlsdóttir

Stjórnin mun síðan skipta með sér verkum.

Jórunni  voru þökkuð ómetanleg og óeigingjörn störf fyrir félagið. Jórunnar hefur verið félaginu óviðjafnanlegur formaður sem mörg félög hafa öfundað okkur af. Ótrúlega dugleg, ósérhlífin og fylgin sér. Það tæki langan tíma að telja upp allt það sem hún hefur afrekað í nafni félgsins eða unnið fyrir þess hönd.Að loknum formlegum aðalfundi og kaffiveitingum héldu læknarnir Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga og Viðar Eðvarðsson sérfræðingur í nýrnasjúkdómum barna fróðleg erindi um þjónustu Landsspítalans fyrir nýrnasjúka, fullorðna og börn. Við vorum mun fróðari eftir þetta kvöld.

Bylting fyrir fólk í blóðskilun

Fyrir nokkru gaf Félag nýrnasjúkra skilunardeild Landspítalans ómtæki/æðaskanna. Það er mikið framfaraspor fyrir deildina að hafa slíkt tæki en með því er hægt að sjá legu fistilst (æðaaðgengis) sem gerir stungur í fistilinn léttari bæði fyrir hjúkrunarfræðing og sjúkling. 

Sumarið 2011 gáfu ástvinir Eddu Svavars frá Vestmannaeyjum félaginu tveggja miljóna króna gjöf til minningar um Eddu en hún var einn af stofnendum Félags nýrnasjúkra. Þegar þessi rausnarlega gjöf barst félaginu var ákveðið að hún skyldi notuð til tækjakaup fyrir skilunardeild. Ákveðið var að kaupa ómtæki. Til þess að svo mætti verða þurfti enn að afla talsverðrar fjárhæðar og hratt félagið þessvegna af stað söfnun. Leitað var til ýmissa félagasamtaka auk þess sem allt áheitafé úr Reykjavíkurmaraþoni rann til söfnunarinnar. Söfnunin gekk svo vel að ómtækið var afhent skilunardeild 6. desember 2012.

Stjórn Félags nýrnasjúkra

Ertu félagsmaður?

Hvað viltu að Félag nýrnasjúkra setji í forgang?

Sendu tillögu á nyra@nyra.is

Er afmæli? Viltu senda minningarkort?

Allur ágóði af sölu heillaskeyta og minningarkorta rennur beint í söfnunfélagsins fyrir ÓMTÆKI (æðaskanna) til nota á skilunardeild. 
Afgreiðsla í síma félagsins 561-9244. 

Málþing um líffæragjafir í Borgarnesi

Rótarýklubbur Borgarness heldur málþing um líffæragjafir miðvikudaginn 3. október nk. klukkan 19:30. 

Ókeypissætaferð á vegum félagsins.

Rótarýklúbbur Borgarness 60 ára 
Málþing um  Líffæragjafir- Tökum afstöðu
Miðvikudaginn 3. Október k. 19.30 í Menntaskólanum í Borgarnesi. 

Dagskrá:
Kl. 19.30 – Rótarýklúbbur Borgarness býður fólk velkomiðMagnús Þorgrímsson forseti Rótarýklúbbs Borgarness

Kl. 19.35- Setning MálþingsinsGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Kl. 19.45 – Sýn LandlæknisembættisinsJón Baldursson staðgengill landlæknis

Kl. 19.55- Þjónusta utan spítalaSveinbjörn Berentsson bráðatæknir

Kl.20.05- Upplifun og reynsla líffæraþega
Diljá Ólafsdóttir Félag nýrnasjúklinga
Jóhann Bragason Samtök lungnasjúklinga
Ásta Vigfúsdóttir Félag lifrarsjúkra
Kjartan Birgisson Hjartheill, landsamtök hjartasjúklinga

Kl 20.50 – Meðhöndlun sjúklinga með hjartabilunInga S. Þráinsdóttir hjartalæknir

21.05 – Pallborðsumræður Frummælendur og Siv Friðleifsdóttir alþingismaður

21.45 Málþingsslit

Fundarstjóri Magnús Þorgrímsson forseti Rótarýklúbbs Borgarness

Málþingið er öllum opið.

TAKK!

Stjórnin þakkir af alhug öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í Reykjavíkurmaraþoni 2012.

  • þeim sem tóku þátt og söfnuðu áheitum
  • þeim sem hétu á þátttakendur
  • þeim sem unnu mikla undirbúningsvinnu við að kynna málstað félagsins
  • þeim sem stóðu vaktina í Laugardalshöllinni
  • þeim sem hvöttu hlauparana og kynntu félagið í leiðinni

Styðja félagið með áheitum í Reykjavíkur maraþonin

Spurt hefur verið um hvernig fólk fari að því að styðja félagið með áheitum í Reykjavíkur maraþoninu, því margir vita um þörfina fyrir æðaskannann. 
Fólk velur sér félagið og hlaupara og getur greitt með korti eða í gegnum síma. 

Síðan er: http://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/felag/670387-1279

Einnig er hægt að millifæra beint inn á reikning félagsins. kt. 670387-1279, Banki: 334-26-1558  Þessi reikningur er einungis fyrir styrki.”

Reykjarvíkurmaraþon 2012

Reykjarvíkurmaraþon 2012
NÚ SAFNAR FÉLAG NÝRNASJÚKRA FYRIR
ÓMTÆKI (ÆÐASKANNA) 
FYRIR SKILUNARDEILD LANDSPÍTALANS

Fundur á Akureyri

Félag nýrnasjúkra hélt fund á Akureyri 9. júní 2012. og var hann vel sóttur. Fundurinn var haldinn á veitingahúsinu Greifanum og boðið upp á súpu, salat og brauð. Á fundinn mættu Jórunn Sörensen formaður og Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir framkvæmdastjóri. 

Jórunn kynnti starf félagsins og þau fjölbreyttu verkefni sem stjórnin fæst við. Fundarmönnum var hugleikin erfið staða nýrnasjúkra á Norðurlandi. Fram kom að þeir upplifa mikið óöryggi og óþægindi vegna þess að enginn nýrnalæknir veitir þjónustu norðan lands. En öll þjónusta við nýrnasjúkra er á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavik – bæði nýrnadeild og skilunardeild. Félagið hefur ályktað um mikilvægi þess að blóðskilunardeild verði komið upp við sjúkrahúsið á Akureyri og einnig hafa félagsmenn á Akureyri sent erindi þess efnis til sjúkrahússins. 

Sagt frá Nýrnaskóla Landspítalans en námskeið eru haldin vor og haust. Nánari upplýsingar er að finna hér á síðunni. 

Kristín óskaði eftir ábendingum frá fundarmönnum hvernig félagið gæti bætt þjónustu sína. Slíkar upplýsingar væru verðmætar við stefnumótun félagsins. Fram komu óskir um að hægt væri að fá meiri upplýsingar á heimasíðu félagsins um hvað félagið væri að gera. Kristín benti á að félagið væri einnig á Facebook. 

Rétt er að taka fram að bestu upplýsingarnar um starf félagsins er að finna í ársskýrslum félagsins hér á heimasíðunni.