Hirðljósmyndari Nýrnafélagsins náðist á mynd

Ganga var á vegum Nýrnafélagsins í gær í Laugardalnum eins og alltaf á þriðjudögum. Hirðljósmyndari félagsins náðist núna á mynd. Hvort að honum er í nöp við reiðskjóta eins og sést á skiltinu skal ósagt látiðð🙂

Söfnun meðal hlaupara fyrir Nýrnafélagið

Margir ætla að hlaupa fyrir félagið á eigin vegum til að safna fyrir það. Söfnunin gengur vonum framar miðað við aðstæðurnar í þjóðfélaginu og vill stjórn félagsins senda þakkir til allra þeirra sem leggja hönd á plóginn. Heilsuhópur Nýrnafélagsins lætur sitt ekki eftir liggja og gengur á hverjum þriðjudegi eins og meðfylgjandi mynd sýnir bæði í sól og regni með 2 metra á milli.

Munum að hreyfing bætir mörg mein og styrkur Nýrnafélagsins er samstaða, sérstaklega á svona tímum.

SKORTUR Á KARNITÍNI ER ALVARLEGT MÁL

Jórunn Sörensen fjallar um hvernig það er að lifa við karnitínskort.

Skortur á karnitíni í fullorðnu fólki er mjög sjaldgæfur. Þekktur er skortur í ákveðnum ættum – t.d. í Færeyjum.

Einnig er vitað að blóðskilun eyðir karnitíni. Notkun ákveðins sýklalyfs getur líka stuðlað að eyðingu karnitíns.

,, Vorið 2020 uppgötvaðist eiginlega fyrir tilviljun að karnitínið í líkama mínum var svo lítið að það mældist ekki. Áralangur skortur á karnitíni hafði alvarlegar afleiðingar fyrir mig og olli mikilli skerðingu á lífsgæðum“. Sjá meira undir greinar hér að ofan: ,, Hvað er með þetta karnitín…“

Reykjavíkurmaraþonið verður með breyttu sniði:)

Ykkar framlag er okkar styrkur – hreyfing bætir flest mein. Nú hlaupa allir þar sem þeim sýnist, þann 22. ágúst, en passa verður upp á löglega 2 m fjarlægð. Söfnunin heldur áfram og allir geta verið með þvi að þátttakan er núna ókeypis. Sjá hér á síðunni Hlaupastyrkur. Skráðu þig til þátttöku, settu inn mynd af þér og hlauptu eða gakktu og fáðu vini og vandamenn til að styrkja þig. Þau ykkar sem ætla ekki að hlaupa fara líka inn á Hlaupastyrk og styðja og hvetja með fjáframlögum þessa glæsilegu hlaupara sem láta ekki einu sinni COVID 19 stoppa sig. Koma svo elskurnar.

Reykjavíkurmaraþoni aflýst

Reykjavíkurmaraþonið sem átti að fara fram þann 22. ágúst næstkomandi hefur verið aflýst út af Covid 19 faraldrinum. Nýrnafélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu hlaupurum sem voru búnir að skrá sig til þátttöku fyrir félagið og vonar að þráðurinn verði tekinn upp aftur að ári. Þetta er mikið fjárhagslegt högg fyrir Nýrnafélagið eins og önnur góðgerðafélög sem hafa treyst á þessa styrki en eftirfarandi tilkynning var send út þegar hlaupinu var aflýst: ,,Mikilvægur þáttur Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka er Hlaupastyrkur, þar sem þátttakendur safna fyrir góðgerðafélög á Íslandi. Á síðasta ári var sett áheitamet þar sem hlauparar söfnuðu 167.483.404 krónum til 181 góðgerðarfélaga. Það er afar mikilvægt að leitað verði leiða til að halda söfnuninni áfram og minnka skaðann fyrir góðgerðafélögin og verða kynntar hugmyndir þar um á næstu dögum“.

Heilsuhópur í göngu í Laugardal, 28.7.2020

Alltaf bætist við í hópinn hjá Nýrnafélaginu sem kýs að ganga í góða veðrinu og spjalla saman. Frækinn hópur fór í göngu í gær í blíðskaparveðri. Björn einkaþjálfari fræddi um gildi hreyfingar og Gunnhildur fjölskylduráðgjafi talaði um hvað hreyfing hefur mikið að segja fyrir hana sjálfa. Ferfætlingar eru farnir að blanda sér í hópinn við mikinn fögnuð hinna meðlimana. Ekki fer samt sögum af því hvort að þessi hvutti eigi við einhver nýrnavandamál að stríða.

Einkaþjálfari stendur nýrnasjúkum til boða

Björn Þór Sigurbjörnsson einkaþjálfari hjá World Class tekur að sér að leiðbeina nýrnasjúkum með hreyfingu og matarræði. Nýrnafélagið greiðir þriggja vikna kort félaga hjá World Class og félagar fá niðurgreidda ráðgjafatímana hjá Birni. Nú er bara að panta tíma á netfanginu bjorn@likami.is eða hjá félaginu nyra@nyra.is eða í síma 561 9244.

Nýrnajurtin

Gönguhópurinn fann þessa fallegu jurt í Laugardalnum á sinni vikulegu göngu, og fannst við hæfi að setja hana hér inn.

Heilsuhópur Nýrnafélagsins

Jólafundurinn fellur niður vegna veðurs

 Auglýstur jólafundur Nýrnafélagsins þann 10. desember fellur niður vegna veðurs.