Runólfur Pálsson yfirlæknir fimmtugur

Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum var fimmtugur 25. desember 2009. Að því tilefni bað stjórn Félags nýrnasjúkra Gunnar Karlsson skopmyndateiknara að teikna mynd af honum. Runólfi var síðan færð myndin á milli jóla og nýárs með innilegum hamingjuóskum með afmælið og þökk fyrir traust samstarf. 

Jólagleði félagsins

Jólagleði félagsins var haldin síðdegis sunnudaginn 6. desember.Stórt lifandi jólatré stóð tilbúið í salnum þegar gestirnir mættu og börnin skreyttu það. Jólasveinar komu í heimsókn og sungu með börnunum. Hans Guðberg Alfreðsson prestur flutti hugvekju. Nóg var af góðu meðlæti með kaffinu og gestir áttu notalega stund saman.

Þegar jólagleði félagsins var lokið var tréð flutt niður í setustofu heimilisfólks í Hátúni þar sem það sómdi sér vel fram yfir jól.

FRÉTTIR FRÁ BASARNUM

Basarinn sem félagið hélt í Kringlunni, laugardaginn 14. nóvember 2009, heppnaðist einstaklega vel. Hinar vönduðu og góðu vörur sem basarhópurinn og fleiri félagsmenn höfðu búið til, hvort sem var heimasaumað, prjónað eða heklað ásamt öllu gómsæta bakkelsinu seldist nánast alveg upp. Í kassann kom dágóð summa sem rennur óskipt upp í gerð fræðslumyndar um meðferð nýrnabilunar sem félagið er að láta gera. Einnig var mikilvæg sú kynning á félaginu sem þarna fór fram.

Enn er umræðan um líffæragjafir lítil hér á landi. Félagar dreifðu mörg hundruð líffæragjafabæklingum þennan dag og útskýrðu og fræddu fólk um hvað í því felst að skrá sig sem líffæragjafa.

GÓÐAR FRÉTTIR

Lifandi líffæragjafar fá tímabundna fjárhagsaðstoð.
Í fjárlögum 2010 er farið fram á 21,5 milljón króna fjárveitingu til þess að veita lifandi líffæragjöfum fjárhagsaðstoð. Frá og með áramótum eiga þeir nýragjafar sem tapa vinnulaunum vegna þess að þeir gefa ættingja sínum eða vini nýra, rétt á fjárhagsaðstoð. 

Kostnaður heimila vegna heilbrigðismála

Stjórn Félags nýrnasjúkra bendir gestum heimasíðunnar á eftirfarandi upplýsingar sem er að finna á heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands:

Öryrkjar vörðu 6% af heildartekjum heimilis síns til heilbrigðismála 2006.  Niðurstöður rannsóknar Rúnar Vilhjálmssonar sem hann hefur gert á beinum útgjöldum íslenskra heimila vegna heilbrigðismála.
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/482?CacheRefresh=1

Íslenska velferðarkerfið – Skerðingar á kjörum öryrkja.  Grein Lilju Þorgeirsdóttur í Fréttablaðinu sl. laugardag (3.10)
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/481

Aukin þjálfunarkostnaður verði afturkallaður! – Kynning á bréfi ÖBÍ til heilbrigðisráðherra.
http://www.obi.is/um-obi/frettir/nr/479 

Fjölskyldubingó

Þátttakendur skemmtu sér vel á fjölskyldubingóinu sem haldið var 12. september 2009. Undirbúningshópurinn hafði safnað mörgum, góðum vinningum.Hér fylgja nokkrar myndir frá deginum. 

Einstakur hlýhugur

London í júní 2009
Ég heiti Andri Þór og á heima í London. Þann 14. júní síðastliðinn var ég fermdur við þjóðhátíðarmessu okkar Íslendinga hér í London. 
Afi minn þarf að vera í blóðskilun af því að nýrun hans eru starfa ekki. Afi og amma koma oft í heimsókn til okkar og þá þarf afi að fara í blóðskilun. Það er soldið ferðalag fyrir hann í lestinni en alltaf er hann jafn duglegur.
Þegar við vorum að undirbúa ferminguna mína datt mömmu í hug að hafa söfnun í messunni fyrir Félag nýrnasjúkra og mér fannst það frábær hugmynd og gott og gaman að geta gert eitthvað svona fyrir afa minn.
Við töluðum við prestinn og í lok athafnarinnar sagði hann frá söfnuninni. Það söfnuðust £235 sem afi tók með til Íslands og ég vona að peningurinn komi sér vel fyrir félagið. 

Kær kveðja, Andri Þór

Stjórn félagsins þakkar Andra Þór og fjölskyldu hans sem og þeim sem voru við messu í London 14. júní fyrir þessa miklu hugulsemi og skilning á þörfum félagsins. Féð mun renna óskipt upp í gerð fræðslumyndar um meðferð nýrnabilunar. 

SUMARFERÐIN 2009

Sumarferðin 2009 var að þessu sinni farin í Borgarfjörð og Borgarnes sunnudaginn 14. júní.
Smellið hér til þess að lesa ferðasöguna og skoða myndirnar.

Annað líf – fræðslumynd um líffæragjafir á Íslandi

Líffæragjafir hafa verið allnokkuð í umræðunni undanfarin misseri. Í þessari nýju íslensku fræðslumynd er fjallað um fyrirkomulag líffæragjafa hér á landi. Læknar og aðrir fagaðilar útskýra hvernig þær ganga fyrir sig og aðstandendur líffæragjafa og líffæraþega greina frá reynslu sinni. 
Það var samstarfshópur um málið sem gaf myndina út undir yfirumsjón Runólfs Pálssonar yfirlæknis nýrnalækninga. Myndin er hálftíma á lengd. 
Hægt er að kaupa myndina hjá félaginu og kostar hún 500 krónur. Nánari upplýsingar í síma 561 9244. 

Niðurfellingu bráðmóttöku Landspítala mótmælt

Stjórn Félags nýrnasjúkra mótmælir harðlega ákvörðun framkvæmdastjórnar Landspítalans að leggja niður bráðamóttöku á Hringbraut og beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnarinnar að það verði ekki gert á meðan öll önnur þjónusta við nýrnasjúka er þar til húsa.  

Einnig lýsum við yfir furðu okkar á því að ekki hefur verið haft samráð við félagið í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem nýrnasjúkir hafa varðandi þetta mál.

Það liggur ljóst fyrir að einn spítali á að hafa eina bráðamóttöku – að því gefnu að sjúkrahúsið allt sé á einum stað. Svo er ekki háttað um Landspítalann. Byggingum sjúkrahússins er dreift víða um borgina og nágrenni hennar. Stærstu byggingarnar eru annars vegar á Hringbraut og hins vegar í Fossvogi og þar fer sú starfsemi fram sem felur í sér bráðameðferð alvarlegra sjúkdóma og slysa.

Hagsmunir sjúklinga virðast ekki vera hafðir að leiðarljósi hjá þeim sem taka ákvörðun um að slíta sundur bráðamóttöku fyrir nýrnasjúka (og marga með aðra alvarlega sjúkdóma) og þann kjarna læknisþjónustunnar sem þarf að vera að baki móttökunni.

Mikils kvíða gætir nú hjá mörgum þeirra sem eru í blóðskilun vegna fyrirhugaðra breytinga. Blóðskilun er erfið meðferð og eftir fjórar klukkustundir í vélinni getur fólk orðið svo magnvana og lasið að því er ekki treystandi til þess að fara heim til sín. Bráðamóttakan hefur  tekið við þessum einstaklingum og þar hafa þeir getað náð sér. Vandséð er að sparnaður sé fólginn í því að flytja þá sjúklinga suður í Fossvog til þess að þeir geti jafnað sig þar.

Einnig er ljóst að greining sjúklinga með alvarlega nýrnabilun mun geta dregist úr hömlu þegar kalla þarf til sérfræðing frá Hringbraut suður í Fossvog. Slíkt getur haft alvarlegar og óbætanlegar afleiðingar.

Stjórn Félags nýrnasjúkra ítrekar tilmæli sín um að bráðaþjónusta við nýrnasjúka verði ekki skilin frá annarri þjónustu við þann sjúklingahóp þ.e. skilunardeild og nýrnadeild.