Lilja Kristjánsdóttir:
Lifandi – með líffæri úr annarri manneskju

Það eru 15 ár síðan að ég fékk ígrætt nýra frá móður minni. Þegar ég var 12 ára gömul veiktist ég heiftarlega og í kjölfarið varð snemma ljóst að ég þyrfti að fá nýra einhvern tíma á lífsleiðinni. 16 ára gömul var ég komin með nýrnabilun og óumflýjanlegt að fara í blóðskilun. Það er ekki alveg það sem ungar stelpur óska sér að gera þrisvar sinnum í viku 4 tíma í senn. Eftir þrjá mánuði í blóðskilun og ég orðin frekar pirruð og ósátt við að vera alltaf svona mikið veik og geta ekki tekið þátt í lífinu eins og ég hefði viljað var ákveðið að ég færi til Svíþjóðar í nýraígræðslu. Ferlið sem tekur að finna réttan líffæragjafa sem passar við sjúklinginn er flókið og erfitt. Nýja nýrað er sett neðst í kviðarhol hægra eða vinstra megin. Til þess að líkaminn hafni ekki nýja nýranu þarf einstaklingurinn að vera á ónæmisbælandi lyfjum allt sitt líf. Það er hægt að lifa góðu og eðlilegu lífi með eitt heilbrigt nýra. Það er einstaklingsbundið hversu fljótt sjúklingar ná sér eftir aðgerð. Oftast er það þó mjög fljótt. Meðan ónæmisbælingin er mest þarf t.d. að varast að vera ekki mikið á fjölmennum stöðum því þá er sýkingarhættan mikil. 

Það er ekki hægt að lýsa því í stuttri grein hvers virði það er fyrir manneskju að fá nýtt líf og þar með annað tækifæri til þess að taka þátt í daglegu lífi. Þegar ég var sem veikust hafði Tengslahópur nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra ekki litið dagsins ljós en var stofnaður 2006. Núna nýti ég mér þennan hóp og er það ómetanlegur stuðningur að hitta annað fólk í sömu sporum og deila reynslunni saman. Öll viðtöl í Tengslahópnum eru í algjörum trúnaði.Líffæraígræðslur á Íslandi hafa verið þó nokkuð í umræðunni upp á síðkastið.  

Margir þurfa á slíkri aðgerð að halda. Árið 2003 hófust nýraígræðslur úr lifandi gjöfum hér á landi en fyrir þann tíma voru þær framkvæmdar erlendis. Enn þurfa sjúklingar að fara utan ef þeir þiggja nýru úr látnum gjafa. 

Ár hvert hefja 20 – 30 einstaklingar meðferð vegna lokastigsnýrnabilunar en margir fleiri greinast með langvinna nýrnasjúkdómaÍ febrúar á þessu ári stofnaði ég hóp um líffæragjafir á afþreyingarvefnum Facebook. Á einum mánuði höfðu yfir 5000 manns skráð sig og fer hópurinn stækkandi. Markmiðið með hópnum er að vekja umræðu um líffæragjafir og gefa fólki kost á að ganga með líffæragjafakort á sér. Mikilvægt er fyrir þá sem vilja gefa líffæri sín við andlát að ræða málið við sína nánustu og láta þá vita hug sinn. Það eru þeir sem verða spurðir ef sú erfiða stund rennur upp. Landlæknisembættið gefur út bæklinga með greinargóðum upplýsingum um líffæraígræðslur. Líffæragjafabæklinga er t.d. hægt að nálgast í mörgum apótekum, líkamsræktarstöðvum og heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfshópur fræðslumyndar um líffæragjafir lét framleiða fræðslumyndina Annað líf sem fjallar um þetta mikilvæga málefni. Nú er myndin komin á DVD og hana er hægt að fá á skrifstofu Félags nýrnasjúkra. Að lífa með ígrætt líffæri úr annarri manneskju er stórkostleg og dýrmæt gjöf. 

Höfundur er í Félagi nýrnasjúkra og Tengslahópi nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. júlí 2009.