Mamma og pabbi gáfu henni sitthvort nýrað: Nú blasir lífið við!
Sæl verið þið!
Oddgeir heiti ég og ég er með ígrætt nýra. Kjartan bróðir minn gaf mér nýra í júní 1999 á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Aðgerðin gekk eins og best verður á kosið og nýrað hefur virkað vel þessi 11 ár sem liðin eru síðan. Ég hóf að æfa hlaup 2 árum síðar og til að gera langa sögu stutta, þá hljóp ég mitt fyrsta maraþon (42,2km) vorið 2005 í London. Það var stórkostleg upplifun og mikill sigur fyrir mig að geta þetta. Í kjölfar þessa skoraði ég á Kjartan bróður minn að hlaupa með mér Kaupmannahafnarmaraþon vorið eftir og lét hann slag standa og við hlupum í Köben vorið 2006. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem bærast innra með manni við þessar aðstæður, þarna vorum við þegi og gjafi að hlaupa maraþon saman á sömu slóðum og aðgerðin hafði verið gerð nokkrum árum áður.
Ég sleit krossband í hné þetta sumar og var frá vegna þess í 3 ár, eða allt fram á haust 2009, þá var nóg komið af leti, hóglífi og lélegu líkamsástandi! Nú skyldi tekið á því og stefnan sett á Ironman sem er þríþrautarkeppni, sund 3,8 km í sjó, hjól 180 km og hlaup 42,2 km. Og já, þetta er allt tekið í einum rykk! Þetta yrði fimmtugs afmælisgjöfin mín í ár. Ef ég hefði vitað hversu langur og strangur undirbúningurinn er fyrir svona þrekraun, er óvíst að ég hefði gert þetta. Ég æfði stíft í 10 mánuði, jók smám saman æfingaálagið, fór á sundnámskeið til að læra skriðsund, keypti sérstakan blautbúning til að synda í, keypti sérhannað þríþrautarhjól og æfði 12 til 17 klst á viku. Þetta var magnað ferðalag og ég kynntist mörgu frábæru fólki sem stefndi á sömu keppni. Við æfðum oft saman, skiptumst á upplýsingum og peppuðum hvort annað upp þegar þess þurfti. Svo má ekki gleyma nánustu fjölskyldu sem sýndi mikinn stuðning og þolinmæði á undirbúningstímabilinu, því allar helgar á þessu ári hafa farið í stífar æfingar, 5-7 klst á laugardögum og 3-4 á sunnudögum . Einu frídagarnir voru mánudagar! Svo þarf víst að vinna eitthvað líka.
Keppnin þann 15. ágúst:
Daginn fyrir rigndi alveg rosalega í Köben, allar götur fylltust af vatni og vatn flæddi upp úr niðurföllum og meðal annars inn í húsnæðið sem við gistum í ásamt fleiri keppendum. Þetta átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir marga keppendur, því talið er að klóaki hafi skolað upp á land við þetta og sjórinn sem við syntum í morguninn eftir var mengaður. Vitað er um 600 keppendur sem hafa veikst eftir þetta, með niðurgang og slappleika. Ég með mína ónæmisbælingu fann ekki fyrir neinu!!
Ræst var í sundið í hollum, 250 til 300 í einu og ég var í síðast hollinu. Það gengur mikið á þegar allir hlaupa útí í einu og barist um pláss en jafnframt „hófleg“ tillitssemi. Mér leið vel í sundinu, synti á 1 klukkustund og 7 mínútum þessa 3,8 km. Ekkert mál, enda vel undirbúinn. Þá var að skipta yfir á hjólið, en ég var í hjólabúningnum undir blautbúningnum svo það er bara af fara í sokka, hjólaskó og setja á sig hjálminn. Hjólin voru geymd á séstökum stæðum eftir keppnisnúmeri.
Veðrið var orðið mjög gott, hlýtt en skýjað, hjólaðir voru tveir 90 km hringir, ákaflega falleg leið um Sjáland og eftir að hafa barist í mótvindi og brekkum allar helgar á Íslandi var þetta eins og himnaríki hjólarans! Ég brosti allan hringinn, allan tímann, nema þegar sprakk hjá mér, en það tafði mig nokkuð að skipta um slöngu og pumpa í. En ég var með allt til reiðu ef spryngi, og búinn að æfa skiptingu heima. Ég drakk mikinn vökva með sykri og söltum á hjólinu, tók salttöflur og borðaði orkustangir, snikkers og orkugel.
Mikilvægt er að nærast eins og hægt er á hjólinu því maður borðar ekki fasta fæðu í hlaupinu. Talið er að maður eyði um 12000 hitaeiningum í svona keppni.Ég hélt um 30 km meðalhraða eins og planað var og kláraði hjólið á 6 klukkustundum og 15 mínútum. Ekkert mál!
Skiptingin frá hjóli yfir í hlaup tók mig bara 1 mínútu og 57sekúndur ég var í adrenalín rússi og æddi af stað í maraþonið. Það er mjög skrítið að hlaupa eftir svona langan hjólatúr. Lappirnar ekki alveg með á nótunum fyrstu kílometrana. Hlaupnir voru þrír 14 km hringir í miðri Kaupmannahöfn þannig að ég var að mæta félögum mínum og hitti oft á stuðningsliðið mitt, en í því var nánasta fjölskylda og vinir, um 20 manns.
Nú fór þetta að þyngjast, sólin farin að skína og hitinn kominn í 25 stig. Ég var búinn að plana að hlaupa hvern kílometra á 6 mínútum og gekk það nokkuð eftir. Þetta var fjandanum erfiðara einkum síðasti hringurinn, lærin á mér voru alveg frosin og ég vissi að ef ég færi að labba væri þetta búið. En hausinn var í lagi og ég fór þetta á þrjóskunni og hvatningu fjölskyldunnar. Ég hljóp græna dregilinn í mark með 2 litla frænkur mér við hlið og tilfinningin að klára þetta var dásamleg, öll þessi vinna að skila árangri og tíminn betri en ég hafði þorað að vona, 11 klukkustundir og 51 mínúta.
Ég hugsaði vel um nýrað mitt dýrmæta, drakk mikið allan tímann og tók salttöflur. En eftir á að hyggja klikkaði ég aðeins á saltinntökunni í hlaupinu þannig að eftir að ég kom í mark leið ég næstum útaf, enda með 80/60 í blóðþrýsting! 1 líter af saltvatni í æð hressti mig fljótt við. Ég hefði ekki farið út í þetta ef ég hefði verið að hætta nýranu, ég treysti Runólfi Pálssyni nýrnalækni þegar hann gaf grænt ljós á þetta.
Það að setja sér markmið í lífinu og þurfa að hafa fyrir því að ná þeim, gefur lífinu gildi. Maður er það sem maður hugsar og ég, þrátt fyrir að hafa verið nýrnasjúklinur alla mína æfi, hef aldrei litið á mig sem sjúkling. Ég hef líka reynt að horfa á það jákvæða í mínum veikindum og vinna út frá því.
Vona að þið hafið haft gaman af lestrinum og að þetta verði einhverjum hvatning til að fara að hreyfa sig, því við berum jú ábyrgð á eigin lífi og það að stunda líkamsrækt er gott fyrir líkama og sál.
Oddgeir Gylfason