Frá Félagi nýrnasjúkra

Eru þín nýru í lagi ?
Það er spurning sem allir ættu að spyrja sig fyrir Alþóða nýrnadaginn 8. marz 2007, til að reyna að fyrirbyggja að lenda í skilun eða þurfa ótímabæra ígræðslu á nýra og er það mest áríðandi boðskapur þessa dags.

Alþjóða nýrnadagurinn 8. marz n.k. er haldinn annað árið í röð af Alþjóðasamtökum nýrnafélaga (International Federation of Kidney Foundations). Félag nýrnasjúkra gekk í þessi samtök fyrir tæpu ári. Við erum einnig aðilar að evrópusamtökum nýrnafélaga og norrænum samtökum nýrnafélaga. Fulltrúar norrænu samtakanna hittast einu sinni á ári til að bera saman bækur sínar.
Félag nýrnasjúkra var stofnað 30. október 1986. Markmið þess er að styðja alla sjúklinga með þráláta nýrnasjúkdóma og einkum og sér í lagi að vinna að hagsmunum skilunarsjúklinga og nýrnaþega.
Í tilefni þessum degi hefur Félag nýrnasjúkra ákveðið að hafa opið hús þann 8. marz í Hátúni 10b, 9. hæð milli kl. 15-17 til kynningar á félaginu og störfum þess og eru allir velkomnir.
Markmið og tilgangur Félags nýrnasjúkra eru eftirfarandi :
Félagið gefur út upplýsinga- og fræðslubæklinga til að auka þekkingu á nýrnasjúkdómum og til leiðbeininga fyrir skilunarsjúklinga og sjúklinga með ígrætt nýra.
Margir sérfræðingar halda fræðsluerindi á félagsfundum og veita þannig sjúklingum og aðstandendum þeirra þýðingarmiklar leiðbeiningar.
Að fræða almenning og sjúklinga um nýrnasjúkdóma, meðferð þeirra og félagsleg vandamál, sem þeim fylgja.
Að efna til fræðslufunda, skemmtifunda, skemmtiferða og annarra félagsstarfa.
Að halda sambandi við systurfélög á Norðurlöndum og víða erlendis.
Fjáröflun félagsins er með félagsgjöldum, sölu minningarkorta og styrkjum frá Öryrkjabandalagi Íslands og fleiri aðilum.
Góð samvinna er milli félagsins, nýrnalækna og starfsfólks nýrna- og skilunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar eru reyndir starfsmenn sem þjóna nýrnasjúklingum fagmannlega.
Fyrsta ígræsla á nýra í Íslending var framkvæmd í Englandi 1970. Fyrir nokkrum árum var farið að græða nýru í fólk hér á landi og eru gerðar um það bil 8-12 aðgerðir á ári. Fyrsta ígræðslan hér heima var framkvæmd í desember 2003.
Biðtími eftir nýra getur verið allt að einu ári því ígræðsluaðgerðirnar eru aðeins gerðar nokkrum sinnum á ári. Hvernig sem á það er litið aukast lífsgæði sjúklinga til muna eftir nýraígræðslu og fara sumir jafnvel aftur út á vinnumarkaðinn.
Annað sem þarf að hyggja að sem fyrst er að þeir sem gefa nýra fari ekki af launaskrá hjá sínum vinnuveitendum og veikindaréttur skerðist ekki á meðan þeir eru að ná sér eftir aðgerð. Líklega þurfa stjórnvöld að koma að þessu máli.Þeir sem vilja styrkja Félag nýrnasjúkra fjárhagslega geta lagt inn á Landsbanka Íslands 0115 2618061 eða gerst styrktarfélagar.
Ágætu lesendur ef fleiri upplýsinga er þörf farið þá á heimasíðu okkar www.nyra.is Þar erutengingar út um allan heim og mun meira af upplýsingum en í þessari stuttu samantekt.

Kristján Pétursson formaður Félags nýrnasjúkra