Aðalfundur félagsins fór fram 16. maí og gekk vel

Nýr formaður Björn Magnússon var kosinn til tveggja ára. Björn hefur setið í stjórninni undanfarin ár, nú síðast sem varaformaður, en fyrr á þessu ári tók hann við formennsku, af Hannesi Þórissyni sem varð að draga sig í hlé. Annars varð ekki breyting á stjórnarfulltrúum, fyrir utan verkaskiptingu sem var breytt að hluta. Aðalmenn voru kjörnir Bragi Ingólfsson, Hallgrímur Viktorsson, Hannes Þórisson og Margrét Haraldsdóttir. Varamenn eru Magnús Sigurðsson og Einar Björnsson. Þá er Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir reiðubúin til að koma inní stjórn ef einhver forföll verða. Við óskum stjórninni og félagsmönnum öllum, góðs gengis á næstu misserum. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir fékk góðar þakkir fyrir afar vel unnin störf fyrir félagið.

Bókin „Allt sem þú getur gert til að hægja á nýrnabilun“, í þýðingu eftir Per Ake Zillén hefur verið með nokkurri eftirvæntingu. Hún er nú tilbúin og var kynnt á fundinum þar sem fyrstu eintökin voru til sýnis. Bókin mun á næstunni fara í dreifingu og verður hægt að nálgast hana í rafrænu formi á vefnum okkar nyra.is.

Áður en formlegur aðalfundur var settur kom Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Ísland, þar sem hún útskýrði afstöðu stofnunarinnar gegn hugmyndum um ætlað samþykki við líffæragjöf. Nokkrar umræður spunnust og er það von okkar að þetta mikilvæga málefni fái samþykki, verði nýtt frumvarp lagt fyrir Alþingi okkar Íslendinga.