VORFERÐIN fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa

Vorferðin var farin laugardaginn 15. maí 2010. Haldið var af stað frá Hátúninu á slaginu 13:00 og ekið rakleitt austur að Þjórsá með viðkomu á Selfossi þar sem Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur bættist í hópinn. Þessa stuttu leið yfir Hellisheiðina fræddi Björn Jónsson fararstjóri okkur um myndun þess lands sem við ókum yfir og framhjá, á einstaklega skemmtilegan hátt. Ekið var að Urriðafossi og hann skoðaður. Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins þótt því trúi ekki allir þar sem fossinn er ekki hár. Þennan foss þekkja allt of fáir þótt hann sé steinsnar frá þjóðveginum.
Áfram var ekið niður með Þjórsá og þaðan í vestur fram hjá Baugstaðabúinu og Knarrarósi. Ekið var í gegnum bæina Stokkseyri og Eyrarbakka þar sem við fræddumst um merk hús – bæði stór og smá. Minnsti mannabústaðurinn var Þuríðarbúð sem við skoðuðum. Síðan lá leiðin í Friðlandið í Flóa. Það vakti athygli og aðdáun okkar hve Fuglaverndarfélagið hefur unnið gott starf með því að endurheimta votlendi og koma upp friðlandi fyrir fugla. Það er strax farið að skila sér í stórauknum fjölda fuglategunda og fjölda innan tegunda. Ekki man ég hve mörg lómapör Jóhann Óli sagði að verptu núna í Friðlandinu. Þarna er líka búið að koma upp fuglaskoðunarhúsi – afbragðsaðstöðu til þess að skoða fugla og sáum við lómapar á tjörn sem var lítið hrifið þegar álft settist á vatnið hjá þeim.

Nú vorum við orðin bæði svöng og kaffiþyrst og hlaðborðinu í Rauða húsinu á Eyrarbakka því tekið fagnandi. Þar sátum við í rólegheitum drjúga stund og var stöðugt bætt á veisluföngin eftir því sem á þau gekk. Hjördís Guðmundsdóttir bauð okkur að skoða kirkjuna sem við gerðum um leið og við fórum aftur í rútuna og ókum heim á leið. Ánægð eftir skemmtilegt og fróðlegt síðdegi kvöddumst með virktum í ferðalok. Það var Björn Jónsson leiðsögumaður sem skipulagði ferðina.