ÖBI: Auknar álögur á öryrkja í fjárlagafrumvarpinu

Stjórnvöld boða 3,5% hækkun bóta almannatrygginga á sama tíma og áætlanir eru um að hækka matarskattinn í 12% og bæta enn á álögur sjúklinga.

Tekjulágir hópar s.s. örorkulífeyrisþegar, þurfa að verja stærri hluta tekna sinna til matarkaupa, en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að örorkubætur duga ekki til mannsæmandi framfærslu. Það ætti ekki að þurfa að taka fram að mikill munur er á fjárhagslegum aðstæðum almennings og þessa hóps. Því mun hækkun matarskattarins koma mjög illa við þennan hóp, en ófáir örorkulífeyrisþega eiga hreinlega ekki fyrir mat út mánuðinn.

Rannsóknir hafa sýnt að örorkulífeyrisþegar sem eru með skerta starfsgetu, oft vegna heilsubrests, nota heilbrigðiskerfið meira en margur annar.

Gjöld fyrir heilbrigðistengda þjónustu hækkuðu á bilinu 4–20% í byrjun þessa árs auk þess sem gjaldskrá hins opinbera fyrir rannsóknir og sérfræðiþjónustu hækkaði einnig í júlí síðast liðnum. Til að bæta gráum ofan á svart er í frumvarpinu boðaðar enn frekari hækkanir svo sem hækkun viðmiðunarfjárhæða í greiðsluþátttökukerfi lyfja. 

Enn á ný eiga opinber gjöld að hækka umtalsvert meira en bæturnar og eru hækkanir langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans en fjármálaráðherra hafði áður lofað að hækkanir opinberra gjalda ættu ekki að fara yfir 2,5 % verðbólgumarkmiðið.  

Meiri álögur á sjúklinga hindra enn frekar aðgengi tekjulágra hópa, s.s. örorkulífeyrisþega, að heilbrigðisþjónustu, en rannsóknir hafa sýnt að æ fleiri örorkulífeyrisþegar fresta því að fara til læknis eða fara ekki.

Formaður ÖBÍ telur jákvætt að áætlað sé að hækka barnabætur og er það mikilvæg aðgerð fyrir barnafólk með lágar tekjur.

Hinsvegar bendir formaður á að lífeyrisþegar bíða enn leiðréttingu kjaragliðnunar síðustu ára og hvetur stjórnvöld til að forgangsraða í þágu velferðar og mannréttinda svo fólk búi við viðunandi framfærslu.