Ályktun um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar

Stjórn Félags nýrnasjúkra skorar á stjórnvöld að halda Reykjavíkurflugvelli áfram á sínum stað í skipulagi borgarinnar, með öryggi landsmanna og hagræði í huga. Staðsetningin er mikilvæg vegna sjúkraflugs, veikra og slasaðra til sjávar og sveita og hversu stutt er á spítalann. Líf og heilsa nýrnasjúkra veltur á góðri heilbrigðis-þjónustu og greiðum samgöngum. 
Þar sem nýrnasjúkir sækja alla sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur á Landspítalann skiptir flugvöllurinn miklu máli. Staðsetningin skiptir miklu fyrir langveika  sem reglulega sækja þjónustu á spítalann, jafnvel oft í viku eins og nýrnasjúkir í blóðskilun.  Skilunin heldur þeim á lífi. Við líffæragjöf skiptir tíminn öllu  máli og skilur oft milli lífs og dauða. Meira en þrír fjórðu allra líffæraþega eru nýrnasjúkir. Nálægð vallarins við Landspítalann  skiptir sköpum þegar skyndilega þarf að flytja dauðveika sjúklinga af Landspítala til bráðaaðgerða erlendis. 
Staðsetning flugvallarins er gríðarlega mikilvæg, breytum henni ekki.