Málþing

Þann 10. maí 2008. var haldið málþing á vegum Landspítala og Tryggingastofnunar um heilsuhagfræðilega þætti nýrnaígræðslu á Íslandi. 

Karl Steinar Guðnason forstjóri TR opnaði ráðstefnuna með ávarpi. Hann ræddi m.a. um samskipti fjármálavalds, TR og Landspítala og sagði þau oft hafa einkennst af takmarkaðri framtíðarsýn. Hann sá mikinn ávinning í lögum sem heimila þessum tveimur stóru stofnunum, Tryggingarstofnun og Landspítala, að semja sín á milli. 

Þá talaði Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á LSH og ræddi meðferð við lokastigsnýrnabilun á Íslandi og sérstaklega þátt nýrnaígræðslna. Í erindi hans kom m.a. fram að í vor var 25. ígræðslan framkvæmd hér á landi. Runólfur taldi upp helstu vörður á leið Íslendinga í meðferð við nýrnabilun á lokastigi. Skilun hófst hér á landi 1968 og fyrsta ígræðslan á nýra í Íslending fór fram í London 1970. Nýrað var úr lifandi gjafa og lifir nýraþeginn enn. Það er síðan í desember 2003 sem nýrnaígræðslur hefjast á Íslandi. Áður hafði verið samið við hin ýmsu sjúkrahús í öðrum löndum og síðast við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og þar eru enn framkvæmdar ígræðslur nýrna úr látnum gjöfum í Íslendinga. Fram kom að veruleg aukning hefur orðið á nýrnaígræðslum frá því aðgerðirnar hófust á LSH og má nefna að árin 2005 og 2006 voru alls gerðar 29 ígræðslur, 20 frá lifandi gjöfum og 9 frá látnum gjöfum. Runólfur gat sértaklega Jóhanns Jónssonar sérfræðings sem starfar við líffæraígræðslur í Virginia í Bandaríkjunum en hann kemur hingað þrisvar á ári og framkvæmir aðgerðir á Íslendingum. Runólfur ræddi framtíðina og hve mikilvægt að búa vel að öllum þáttum nýrnaígræðslna á Íslandi og einnig sagði hann að tímabært væri að skoða möguleika á að hér landi yrðu einnig gerðar ígræðslur nýrna úr látnum gjöfum. 

Á eftir Runólfi talaði Jórunn Sörensen sem kallaði erindi sitt “Nýja nýrað mitt breytir öllu”. Titillinn segir í raun allt sem segja þarf en hún líkti því að fá nýra m.a. við að hafa fengið líkamlegt og andlegt frelsi í stað lífs sem var niðurnjörvað að blóðskilunardögunum. Hún ræddi einnig hve mikið frelsi það er fyrir manninn hennar að hafa hana heilbrigða því fáir gera sér fulla grein fyrir því hve mikil skerðing það er á lífsgæðum þegar makinn er langveikur. 

Síðasta erindið var hagfræðileg úttekt á lokastigsnýrnabilun sem Tinna Laufey Ásgeirsdóttir umsjónarmaður meistaranáms í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands flutti. Tinna fór ítarlega í gegnum alla þætti meðferðar við nýrnabilun út frá tölfræðilegri hagkvæmni. Eins og ljóst má vera birtast háar tölur á tjaldinu hvort sem rætt er um kostnað við skilunarmeðferð eða ígræðslu. Niðurstaðan er í örstuttu máli sú að ígræðsla hefur borgað sig eftir tvö ár á móti skilun. 

Í lokin tók fundarstjóri Eiríkur Jónsson yfirlæknir nýrnaskurðlækninga á LSH saman helstu niðurstöður og stjórnaði umræðum.