Íslenskir nýrnasjúklingar settir í forgang
Íslendingar á biðlista eftir nýrnaígræðslu í gegnum norrænt samstarf um líffæragjafir voru settir í forgang eftir fund líffæraígræðsluteymis Landspítalans með fulltrúum Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Svíþjóð í nóvember í fyrra.
Níu aðgerðir hafa verið gerðar það sem af er þessu ári sem er met.
Ófremdarástand var í þessum málaflokkum í fyrra þar sem aðeins ein aðgerð hafði verið framkvæmd þegar teymið óskaði eftir fundi með fulltrúum sjúkrahússins til að krefjast skýringa.
Það skilaði sér í því að algjör viðsnúningur hefur orðið í ár.
„Við vorum óánægð með hversu fá nýru við vorum að fá úti í Gautaborg því við höfðum verið að gefa heilmikið af nýrum í verkefnið. Þeir brugðust vel við og árangurinn talar sínu máli“ segir Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga og umsjónarmaður líffæraígræðsluteymis Landsspítalans.
„Allir íslensku einstaklingarnir á biðlistanum voru settir í forgang og það hafa verið níu nýrnaígræðslur frá látnum gjöfum í Gautaborg á þessu ári. Á sama tíma hafa verið átta frá lifandi gjöfum þannig að þetta hafa verið 17 ígræðslur alls, og það er það mesta sem nokkurn tímann hefur verið á einu ári“.
Samstarfið sem um ræðir er undir merkjum ígræðslustofnunarinnar Scandiatransplant sem starfrækir líffærabanka. Líffæri sem íslendingar gefa fara í bankann og ígræðsla fer oftast fram á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð sem er samstarfssjúkrahús verkefnisins.
Að meðaltal höfðu íslendingar verið að fá um fimm til sex nýrnaígræðslur á ári í gegnum samstarfið, átta árið 2015 en síðan aðeins eina í fyrra. Fundurinn virðist því hafa verið mikilvægur vendipunktur.
„Samt sem áður eru enn ellefu íslendingar á biðlistanum í Gautaborg sem sýnir hvað þörfin er mikil. Svo erum við með í kringum 15 einstaklinga í undirbúningi fyrir nýrnaígræðslu frá lifandi gjafa sem gerðar eru á Landspítalanum. Þannig að það er eins gott að það var hægt að bregðast við þessu“. (SMJ Fréttablaðið)