Hreyfingarleysi veldur tvöfalt fleiri dauðsföllum
Frétt úr Kjarnanum:
Hreyfingarleysi veldur tvöfalt fleiri dauðsföllum en offitaRitstjórn KjarnansSunnudagur 18. janúar 2015 17:02Tvöfalt fleiri deyja af völdum hreyfingarleysis en af völdum offitu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var við Cambridge-háskóla og birtist í American Journal of Clinical Nutrition í vikunni. Samkvæmt rannsókninni getur 20 mínútna göngutúr á hverjum degi dregið stórlega úr hættu á ótímabæru dauðsfalli.Til að mæla tengsl milli hreyfingarleysis og ótímabærra dauðsfalla, sem og hvernig offita tengist hvoru tveggja, voru gögn um 334.151 karla og konur í Evrópu skoðuð. Á tólf ára tímabili voru hæð, þyngd og ummál mittis mæld og þá var fólk látið meta hversu mikla hreyfingu það fékk.Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var munurinn mestur þegar þeir sem hreyfa sig ekkert voru bornir saman við þá sem hreyfa sig frekar lítið. Rannsakendur meta það sem svo að með því að hreyfa sig sem nemur 20 mínútna göngutúr á dag, sem brennir á bilinu 90 til 110 kaloríum, sé hægt að minnka líkur á ótímabærum dauða um 16 til 30 prósent. Með göngutúrnum færist fólk úr algjöru hreyfingarleysi í næsta hóp, þann sem hreyfir sig frekar lítið.676 dauðsföll rakin til hreyfingarleysis
Höfundar rannsóknarinnar notuðu einnig nýjustu tölur um dauðsföll í Evrópu. Þeir telja að 337 þúsund af 9,2 milljón dauðsföllum meðal Evrópubúa orsakist af offitu, það er að fólk hafi verið með BMI stuðul yfir 30. Aftur á móti telja þeir að tvöfalt fleiri eða 676 þúsund dauðsföll megi rekja til hreyfingarleysis.
„Þetta eru einföld skilaboð: smá hreyfing á hverjum degi gæti haft umtalsverð áhrif á heilsu þeirra sem hreyfa sig ekkert. Jafnvel þó við höfum komist að því að aðeins 20 mínútur myndu breyta ýmsu, þá ættum við að horfa til þess að gera meira – það er sannað að hreyfing hefur mikla heilsubót í för með sér og ætti að vera mikilvægur hluti af daglegu lífi,“ segir Ulf Ekelund prófessor sem leiddi rannsóknina í viðtali við Science Daily. Nick Wareham prófessor bætir því við að auðveldara geti verið að fá fólk til að stunda hreyfingu af þessu tagi en að fá of feita til þess að léttast mikið. Þó eigi áfram að stefna að því fækka of feitu fólki.
http://kjarninn.is/2015/01/hreyfingarleysi-veldur-tvofalt-fleiri-daudsfollum-en-offita/