Ráðherra hvattur til stuðnings við frumvarp
Ég (Kristín) fór í morgun og ræddi við ráðherra um ætlað samþykki við líffæragjöf og frumvarpið um þá lagabreytingu. Það stóð til að þrír einstaklingar frá öðrum félögum en nýrnasjúkum mundu mæta með mér en hinir mættu ekki. Það var beðið í nokkrar mínútur en þeir komu ekki.Á móti mér tóku ráðherrann Kristján Þór Júlíusson, skrifstofustjórinn Sveinn Magnússon læknir og ritari sem ég náði ekki alveg nafninu á. Ég fór fram á að ráðherrann mundi styðja frumvarpið um ætlað samþykki. Hann sagði að ráðherra hefði aldrei afskipti af þingmannafrumvarpi eins og þetta væri. Hann muni síðan greiða atkvæði eins og hver annar þingmaður þegar þar að kæmi. Ég spurði hvort að ráðuneytið hefði sent frá sér slíkt frumvarp ef þetta hefði ekki komið til. Hann svaraði því að það hefðu þeir ekki gert. Við fórum í gegnum málið og kom það skýrt fram að þeir eru ekki á þeirri skoðun að lögfesting ætlaðs samþykkis sé til bóta.
Við fórum yfir rökin í skýrslunni og þeir voru ekki sammála mér um að niðurstaðan væri sú að best væri að allir þættir færu saman. Þeir voru hins vegar á því að undirbúningur heilbrigðisstarfsfólks og kynning til almennings væru það sem skipti máli en ætlað samþykki gæti jafnvel unnið gegn því markmiði að auka líffæragjöf. Þarna vorum við alveg ósammála. Þeir eru hins vegar tilbúnir til að fjármagna kynningaherferð sem farið verði í á vegum Landlæknisembættisins og við og önnur félög tækjum þátt í þeirri kynningu. Félögin leggi þó ekki til fé. Það mun auðvitað skipta máli en er ekki endilega nóg til að auka framboð líffæra varanlega, að mínu mati.Kveðja,Kristín
Skýrsla heilbrigðisráðherra um hvernig má fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum á Íslandi.