Nýrnafélagið hefur háð langa baráttu fyrir því að nýrnasjúklingar sem þurfa að fara á milli sveitafélaga til að fara í blóðskilun sem er lífsbjargandi meðferð fái hærri greiðslu greidda en 75% af aksturskostnaði. Þessi prósentutala þýddi t.d. að sjúklingur af Akranesi sem sótti þessa þjónustu á Landspítala, þurfti að greiða sjálfur ca. 1.2 milljónir á ári í aksturskostnað.

En nú  hafa Sjúkratryggingar Íslands breytt reglunum og  gefið út að lengri ferðir þ.e. ferðir á milli staða ef viðkomandi býr ekki í því sveitarfélagi sem þjónustan fer fram þá er greitt 95% af heildarverði. Þannig að sjúklingar sem ekki geta keyrt sjálfir á milli og þurfa að nýta sér akstursþjónustu eiga rétt á 95% endurgreiðslu. Þetta á aðeins við um þá sem eru í lífsbjargandi meðferð.

Nýrnafélagið er ákaflega ánægt með þessar málalyktir enda mikilvægt skref fyrir félaga innan þess en vill árétta ályktun þá sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 10. maí síðastliðinn og hljóðar svo:

Skorað er á Samband íslenskra sveitafélaga að þau komi sér saman um akstursþjónustu milli sveitafélaga fyrir fatlað fólk og langveikra sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur. Aðeins með því er hægt að stuðla að jafnræði óháð búsetu.