STAÐREYNDIR UM LÍFFÆRAGJAFIR OG LÍFFÆRAÍGRÆÐSLUR

Margir hafa haldið því fram að ef að menn eru tilbúnir til þess að þiggja ígræðslu líffæris þá eigi menn líka að vera reiðubúnir að gefa líffæri að sér látnum.
Ígræðsla líffæris er úrræði sem beitt er til þess að lækna bilun í lífsnauðsynlegu líffæri.
Hugmyndin um ígræðslu líffæris úr einum manni í annan í lækningaskyni er aldagömul en fremur stutt er síðan læknum tókst að gera hana að veruleika.
Árið 1954 var ígræðslu líffæris beitt í fyrsta sinn með góðum árangri þegar nýra úr lifandi gjafa var grætt í bróður hans en þeir voru eineggja tvíburar. Þeginn hafnaði ekki líffærinu því vefjaflokkar bræðranna voru þeir sömu.
Fram til ársins 1991 voru Íslendingar öðrum háðir um líffæri til ígræðslu en þá urðu mikil tímamót því þá voru sett lög hér á landi sem skilgreindu heiladauða og heimiluðu brottnám líffæra til ígræðslu.
Norrænt samstarf er um líffæragjafir undir merki ígræðslustofnunarinnar Scandiatransplant sem starfrækir líffærabanka. Líffæri sem Íslendingar gefa fara í líffærabanka Scandiatransplant en ígræðsla þeirra fer oftast fram á samstarfsjúkrahúsi okkar á Norðurlöndum sem nú er Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg.
Árangur af líffæraígræðslum er orðinn framúrskarandi góður.
Stærsta vandamálið sem við glímum við í dag er skortur á líffærum til ígræðslu.
Nýru eru þau líffæri sem oftast eru grædd í Íslendinga eins og aðra. Hlutfall lifandi gjafa sem gefa nýra er mjög hátt hér á landi og undanfarna tvo áratugi hafa þeir verið um 70% af öllum nýragjöfum. Önnur líffæri koma nær eingöngu frá látnum gjöfum.
Frá einum látnum gjafa hafa komið líffæri sem hafa hjálpað sex einstaklingum. Einn látinn einstaklingur getur mögulega gefið 7 einstaklingum nýtt og betra líf.
Líffæragjafar geta verið á öllum aldri en fer nokkuð eftir hvaða líffæri á að nota.Mestu ræður þó fyrra heilsufar gjafans og ástand einstakra líffæra.
Andlát vegna heiladauða er forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri látinna einstaklinga til ígræðslu. Heiladauði merkir að átt hefur sér stað óafturkræf stöðvun á starfsemi heilans. Þegar heiladauði hefur verið staðfestur er starfsemi annarra nauðsynlegra líffærakerfa hins látna haldið gangandi með vélbúnaði og lyfjum þar til gjafalíffærin hafa verið numin brott .
Læknar koma frá Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg og framkvæma brottnám og fara síðan með líffærin til Gautaborgar.
Kannanir hafa sýnt að 80% einstaklinga segja að þeir myndu samþykkja að líffæri þeirra yrðu notuð til ígræðslu ef sú staða kæmi upp en fæstir hafa fyrir því að skrá þann vilja sinn og ræða hann við nána ættingja sína. Það leiðir til þess að aðstandendur eru spurðir og þeim finnst erfitt að taka slíka ákvörðun fyrir annan einstakling þótt nákominn sé.
Allt að 40% aðstandenda látins ættingja hafna brottnámi líffæra til ígræðslu hér á land og er það svipað því sem þekkist víða annars staðar.
Lög landa eru mismunandi að þessu leyti. Víða er kveðið á um ætlað samþykki sem merkir að gengið er út frá því að einstaklingur sem deyr ótímabærum dauða vilji að líffæri sín séu notuð til ígræðslu nema hann hafi áður gefið skriflega yfirlýsingu um að hann sé því andvígur. Hér á landi aftur á móti er gengið út frá ætlaðri neitun og að sá sem vill að líffæri sín séu notuð til ígræðslu, ef sú staða kemur upp, verður að skrá þann vilja sinn og ræða hann við nána ættingja sína.
Mat flestra er að lög sem gera ráð fyrir ætluðu samþykki hafi jákvæð áhrif á viðhorf almennings til líffæragjafa.
Fleiri og fleiri lönd hafa breytt lögum sínum og gera ráð fyrir ætluðu samþykki.
Rannsóknir sýna að aðstandendur sem samþykkja brottnám líffæra látins ættingja til ígræðslu eru sáttari við þá ákvörðun en þeir sem gera það ekki.
Aðstandendur látins ástvinar sem samþykkja líffærgjöf upplifa að þeir eru að gefa um leið og þeir eru að missa.