Erindi flutt á dagskrá Fagdeildar þvagfærahjúkrunarfræðingaá  Afmælisþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Laugardaginn 21. nóvember 2009 

Fundarstjóri, ágætu hjúkrunarfræðingar og aðrir gestir – 

Til hamingju með afmælið! 

Mér er það einstök ánægja og mikill heiður að fá að koma hér og segja frá reynslu minni sem nýraþega. 

Mér var snögglega og án nokkurs fyrirvara hent út í djúpu laugina. Ég var orðin langveik – manneskja með ónýt nýru. Frá því að vera stálhraust, miðaldra kona missti ég starfsemi nýrnanna eins og hendi væri veifað þegar nokkrir streptókokkar laumuðu sér inn í blóðrásina. Þetta var árið 1998. 

Fram að þeim tíma hafði ég aldrei nokkru sinni hugsað um nýrun sem það sem þau eru – mikilvæg, ómissandi líffæri. Þau voru bara þarna – einhvers staðar aftan í bakinu og sáu um að maður pissaði. Sem var auðvitað ágætt.

Ekki er hægt að lækna skemmd og óstarfhæf nýru svo hjá mér tók við sérhæfð meðferð sem viðhélt lífi mínu og lífsgæðum. Þetta voru reyndar allt önnur lífsgæði en ég hafði áður notið og það tók mig þó nokkurn tíma að finna þau – búa þau til. En það er önnur saga. Þessarar meðferðar naut ég í átta ár. Þá gerðist undrið. Ég vaknaði upp með starfandi nýra!

—————

Þegar ég veiktist sagði Þorsteinn, eiginmaðurinn minn, strax að hann vildi gefa mér nýra. Það dróst hins vegar um þessi ár því við fyrstu rannsókn kom í ljós að hann var með krabbameinsæxli í ristli. Það var fjarlægt og eftir sjö ár tilkynnti Þorsteinn að nú væri hann álitinn heilbrigður og nú skyldum við láta reyna á þetta. Sem sagt svo gert og við tóku meiri og nákvæmari rannsóknir á allri okkar líkamsstarfsemi en við höfðum áður kynnst. Mér liggur við að segja að hverri frumu í honum Þorsteini hafi verið endavent. 

En hvernig leið mér þegar þetta ígræðsluferli var komið af stað? Hvað hugsaði ég? Ekki mikið skal ég segja ykkur. Ég þorði ekki að hlakka til. Ég þorði ekki einu sinni að vona. Eftir mörg ár í skilunarmeðferð slappast vonargenið. 

Við erum mörg alin upp við að sælla sé að gefa en þiggja. Ég man að ég ræddi það við Eirík að mér þætti erfitt að þiggja svona stóra gjöf. “Við verðum líka að læra að þiggja,” svaraði hann. Þessi orð hef ég oft notað síðan þegar ég ræði við fólk sem er í þessum sporum. 

Það var líka erfitt að hlusta á Jóhann, sérfræðinginn frá Ameríku, tönnlast á háum aldri Þorsteins. En ýmsir stöppuðu í mig stálinu. Einkum Selma, ein hjúkkan á skilunardeild, sem unnið hafði á samskonar deild í Noregi. Hún sagði mér að þar væri nýra hiklaust flutt úr einum gamlingjanum í annan. Það hjálpaði einnig að Runólfur hafði engar efasemdir. 

Við mættum á deildina kvöldið fyrir aðgerð – búin að koma hundunum á hundahótel og fá pössun fyrir kettina. Ég var í einhverjum undarlegum og óraunverulegum heimi. Ég svaraði þegar á mig var yrt og lét eins og ekkert væri en ég hafði það sterklega á tilfinningunni að ég væri ekki á staðnum. Það sagði ég líka við Eirík sem leit til mín næsta morgun þegar Þorsteinn hafði verið fluttur á skurðstofuna. “Jú, jú”, sagði Eiríkur, “þú ert hérna.” 

Svo allt í einu var þetta búið. Við hjónin láum þarna hvort í sínu rúmi – með hvort sitt nýrað af nýrnaparinu sem hann Þorsteinn fæddist með. 

———————

Það var gaman að liggja á þvagfæraskurðdeildinni! Ég meina gaman. Ég hef ekki lengur tölu á þeim deildum sem ég hef legið á á Landspítalanum en gaman hefur það aldrei verið – nema í þetta sinn. 

Vissulega var ég mjög ánægð yfir því að vera komin með heilbrigt nýra. Ég áttaði mig reyndar ekki strax á því að ég hafði fengið lífið mitt aftur. Það gerðist smátt og smátt þegar ég fann hvað raunverulega hafði gerst. Að hafa starfandi nýra í líkama sínum breytir öllu. Öllu. 

Hluti af því hve gaman mér fannst var auðvitað líka það að ég var skæhæ af sterum enda sagði ég við Runólf, þegar hann leit til mín morguninn eftir ígræðsluna og spurði hvernig mér liði, að mér fyndist eins og ég yrði aldrei aftur þreytt. 

En það var eitt alveg sérstakt sem hafði þessi áhrif að það var gaman að liggja á þvagfæraskurðdeildinni. Það var sá góði andi sem ríkir á meðal starfsfólks deildarinnar. 

Þvagfæraparturinn af Landspítalanum er eitthvað alveg spes. Þar er betri og jákvæðari starfsandi en ég hef fundið á öðrum deildum. Ef það er eitthvað sem skilar sér til þeirra sem eru inniliggjandi þá er það starfsandinn á deildinni. 

Hér dettur mér í hug eitt atvik sem okkur finnst alltaf skemmtilegt að rifja upp. Það var þegar þvagleggurinn var tekinn hjá Þorsteini. Þetta sem þið, sérfræðingarnir, kallið þvagfæri köllum við hin kynfæri og sem slík vekja þau ákveðin hugrenningatengsl. Þannig að þegar Sigríður, ein af hinum ungu fögru hjúkrunarfræðingum deildarinnar, birtist til þess að framkvæma þetta verk var Þorsteinn minn dálítið stressaður. Ekki kannski síst vegna þess að gamla konan hans lá í næsta rúmi. En stúlkan sú kunni til verka og lét ekki trufla sig – sagði bara ákveðin en glaðlega við manninn minn: “Lay back and think of England!”

Þessi góði starfsandi ríkir einnig á göngudeildinni. Það fann ég til dæmis eitt sinn þegar ég mætti í blöðruspeglun. Þar sem mér er meinilla við þessa athöfn var ég stíf og stressuð og fann þar af leiðandi til. Passaði að kveinka mér svo að allir yrðu varir við það. Hjúkkurnar stóðu með mér og kölluðu: “Þú meiðir konuna, Eiríkur!” Það er notalegur andi á deild þegar hjúkkurnar standa með manni og geta sagt svona við yfirlækninn. 

————–

Það er ekki hægt að lýsa þeirri gleði-, þakklætis- og hamingjutilfinningu sem fylgir því að fá lífið sitt til baka með ígræddu nýra. Aðeins þeir sem hafa ígrætt líffæri þekkja slíka tilfinningu. Hjá mér kom þessi gleði til dæmis fram í því sem ég sagði við Hildigunni þegar ég kom til eftirlits í fyrsta sinn eftir ígræðsluna. Ég sagði við hana að nú gæti ég dáið. Hildigunnur leit á mig með spurn í augum svo ég bætti við að það væri betra að deyja hamingjusamur en í óttalegu volæði. 

—————–

Ennþá, rúmum þremur árum eftir ígræðsluna, finn ég hve merkilegt það er að annað nýrað hans Þorsteins skuli þjóna mér. Að okkur skyldi auðnast að upplifa þetta er ómetanlegt. Þetta var einstakur atburður sem við rifjum oft upp og gleðjumst yfir þeim lífsgæðum sem það færði okkur í daglegu lífi.  

Við bjuggum til sögu um hvað nýrun hans Þorsteins hugsuðu þegar þau áttuðu sig á breytingunni. Við persónugerðum nýrun og sögðum þau vera bræður. 

Nýrað sem varð eftir í Þorsteini áttaði sig allt í einu á því að þetta rólega dútl með bróður sínum, að halda honum Þorsteini hreinum að innan, var úti. “Ég er einn”, hrópaði nýrað, “nú verð ég aldeilis að láta hendur standa fram úr ermum”. Og samviskusamt eins og nýrað hafði alltaf verið tók það betur á svo Þorsteinn er eins hreinn og fínn og áður. 

Þegar nýrað sem lenti í mér hafði náð úr sér kuldahrollinum æpti það upp yfir sig: “Í hvaða skítapleisi er ég lentur!” En þar sem sama samviskusemin hafði ævinlega einkennt báða þessa góðu bræður var ekkert annað að gera en að taka sér tak og byrja að moka út. Nýrað hamaðist eins og vitlaus maður og tókst á nokkrum dögum að gera hreint og fínt í þessum líkama sem það skyldi nú þjóna. 

Og nú stend ég hér, hamingjusöm, með stóra strákanýrað mitt í náranum.

Ég þakka áheyrnina og ítreka einlægar árnaðaróskir mínar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Jórunn Sörensen