Okkar stórkostlegu hlauparar og stuðningsmenn

Félag nýrnasjúkra þakkar af alhug því frábæra fólki sem styður félagið með því að hlaupa í Reykjavíkur maraþoni til stuðnings fyrir félagið. Þetta góða fólk, ásamt auðvitað þeim sem heita á þau, stuðla nú að því að nýrnasjúkum bjóðist blóðskilun utan Reykjavíkur. Til stendur að opna blóðskilunardeildir á Akureyri og á Selfossi. Forsenda þess er þó að okkur takist að safna fyrir þremur vatnshreinsunarvélum. Þegar nýrun starfa illa eða ekki þarf skilun til að hreinsa úrgang úr blóðinu, það er lífsnauðsynlegt. Blóðskilun er einungis í boði á Landspítalanum við Hringbraut. Það hefur verið baráttumál félagsins um árabil að fólki í blóðskilun bjóðist þessi þjónusta víðar en í Reykjavík. Fólk í blóðskilun mætir þrisvar í viku og er 4-5 klst. í senn vélinni. Þetta hefur leitt til þess að fólk hefur oft þurft að sækja um langan veg eða flytja til Reykjavíkur. Það er einnig nánast útilokað fyrir þá sem eru í blóðskilun að ferðast um landið meira en sem nemur dagsferðum. Með stuðningi þessa frábæra fólks og vonandi fleirum mun þetta vonandi breytast innan skamms. Það er ómetanlegt fyrir nýrnasjúka!