Nýrnafélagið kynnir með stolti breytingu sem gerð hefur verið á reglugerð 429/2019 um dvöl á sjúkrahóteli.

Eitt af baráttumálum Nýrnafélagsins hefur verið að blóðskilunarsjúklingar hafi alltaf greiðan aðgang að sjúkrahótelum eða ígildi þeirra þegar þeir þurfa að fara um langan veg í blóðskilun.

Í kjölfarið á því að félagið benti Heilbrigðisráðuneytinu á það misræmi sem var á milli veruleika félaga Nýrnafélagsins og reglna um hámarksdvöl á sjúkrahótelum hefur reglugerð 429/2019 um dvöl á sjúkrahóteli  um sjúkrahótel verið breytt og eftirfarandi klausa komin inn:

„Þurfi einstaklingur á reglubundinni og lífsnauðsynlegri læknismeðferð á sjúkrahúsi að halda til langs tíma svo sem blóðskilunarmeðferð, fjarri heimili sínu og þarf af þeirri ástæðu að dvelja á sjúkrahóteli er heimilt að veita honum undanþágu frá hámarksdvalartíma skv. 2. mgr. Beiðni um undanþágu skal berast Sjúkratryggingum íslands frá lækni eða hjúkrunarfræðingi og metur stofnuninhvort einstaklingur uppfylli skilyrði til undanþágu.

https://island.is/gistinattathjonusta-sjukrahotel

Breytingin felur það í sér að einstaklingar sem þurfa vikulega á lífsgefandi blóðskilunarmeðferð að halda fjarri sínu bæjarfélagi þurfa ekki lengur að una takmörkunum á dvalartíma á sjúkrahóteli meðan á meðferð stendur. Fyrir breytinguna var hámarkstími dvalar á sjúkrahóteli 21 dagur á 12 mánaða tímabili en nú er komin undanþága frá þessum takmörkunum fyrir sjúklinga sem þurfa á blóðskilun að halda.

 

Fyrir hönd stjórnar Nýrnafélagsins starfsárið 2022-2023

Guðrún Barbara Tryggvadóttir

Framkvmdastjóri Nýrnafélagsins