Góður árangur í nýrnaígræðslum

 – 95% nýrna enn starfandi eftir 5 ár –  Margir líffæragjafar –

Frétt úr Morgunblaðinu í dag:  Mjög góður árangur hefur verið í nýrnaígræðslum hér á landi, svo athygli vekur. Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum, greindi frá rannsókn sem gerð var á nýrna- ígræðslum á Íslandi frá 2000 til 2014 á Norræna líffæraígræðslu- þinginu í Stokkhólmi í síðustu viku. 
Nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum hófust hér á landi árið 2003 en ígræðslur með nýrum frá látnum gjöfum eru gerðar á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg eins og aðrar líffæraígræðslur í Íslendinga.  
Nýrnaígræðslum fjölgaði eftir að farið var að gera þær hér heima. Þær eru gerðar þrisvar á ári á Landspítalanum undir stjórn skurðlæknis sem kemur frá Bandaríkjunum, að öðru leyti er nýrnateymið allt hér. „Við erum með mjög sérstakar að- stæður en við nýtum okkar getu til fullnustu. Við flytjum inn þennan eina skurðlækni en allur undirbúningur fer fram hér og öll eftirmeðferð er í okkar höndum. 
Smáþjóð getur glímt við þetta flókna verkefni og tryggt aðgengi að þessari meðferð og árangur í fremstu röð,“ segir Runólfur. Á Landspítalanum hafa verið framkvæmdar 88 nýrnaígræðslur síðan 2003 og er árangur þeirra að- gerða góður en 95% nýrna er enn starfandi eftir 5 ár. Meðaltalið í Evrópu er 87%. Runólfur segir Evrópumeðaltalið lægra því meðal stórþjóða séu sjúkrahúsin mismunandi auk þess að með meiri reynslu fari læknar að teygja sig lengra og gera tvísýnni að- gerðir á meðan á Íslandi hafi menn vaðið fyrir neðan sig. Hér sé líka mjög gott framboð af gjöfum og lægri tíðni nýrnabilunar sem geri það að verkum að völ sé á að velja betri líffæri. 
Tíðni nýrnabilunar á lokastigi er heldur lægri hér en í flestum öðrum Evrópulöndum og svipuð og í Noregi. Runólfur segir ástæðuna fyrir því m.a vera vegna þess að sykursýki er heldur fátíðari hér en annars staðar, þá séu líffærabilanir algengari í mörgum öðrum löndum en á Íslandi. Hátt hlutfall lifandi gjafa Á Íslandi er mjög hátt hlutfall af lifandi gjöfum, en það er nú á bilinu 65 til 70% af öllum gjöfum, á meðan flestar aðrar þjóðir eru vel undir 50%. Því eru færri hér sem þurfa á nýrum frá látnum gjöfum að halda en þeir eru af skornum skammti, víðast hvar á Vesturlöndum er skortur á líffærum því ekki er nóg af líffæragjöfum, segir Runólfur. 
Þeim sem vilja gefa líffæri sín eftir andlát hefur fjölgað skart hér á landi. Lengi vel voru 3 til 4 látnir líffæragjafar á Íslandi ár hvert, eða um tíu á hverja milljón íbúa sem þykir lágt. „En síðan hefur verið vaxtarbroddur í líffæragjöfum síðustu tvö ár sem náði sögulegu hámarki á síðasta ári þegar það voru 12 látnir gjafar. Það setur okkur í hæsta flokk í heiminum, eða um 36 á hverja milljón íbúa sem er gríðarlega mikil aukning.“ Þessa aukningu á látnum líffæragjöfum rekur Runólfur m.a til þess að mikil umræða hefur verið í samfélaginu síðustu ár um líffæragjafir og þá hafi Landlæknisembættið farið af stað með vef til að skrá sig á sem líffæragjafi á einfaldan máta. „Við getum sveiflast hratt niður á við aftur því það getur skapast einstæð staða eitt árið. Þetta getur verið tilviljunum háð svo það verður fróðlegt að sjá hvernig okkur vegnar næstu árin.“ 

Þessa frétt flutti Morgunblaðið 20. maí 2015