Fréttabréf Nýrnafélagsins í október 2024








Velkomin á slökunarfundinn þann 19. nóvember







Nýrað

Fréttabréf Nýrnafélagsins í október 2024

Fullt hús hjá Fjölni á fyrirlestri hans á fyrsta fræðslufundi Nýrnafélagsins þennan vetur.

Kæru félagar.
Starfsemi Nýrnaélagsins hófst með miklum krafti með fundi með nýjum félögum. Þar var félagið kynnt og sú starfsemi og þjónusta sem fólki stendur til boða hjá félaginu..
Í október var fyrsti fræðslufundur vetrarins en Fjölnir Elvarsson nýrnalæknir sagði okkur frá öllu því sem nýrnasjúklingar þurfa að vita en vita kannski ekki. Mjög góður fyrirlestur og fjölsóttur hjá Fjölni.
Í siðasta fréttabréfi skrifaiði Gunnhildur Axelsdóttir um heilnæmi þess að ganga. Nýrnafélagið hefur í nokkur ár verið með léttar göngur í Laugardalnum á hverjum fimmtudegi kl. 17:00. Ekki þarf að fjölyrða um það hvað það er nauðsynlegt fyrir nýrnasjúklinga að hreyfa sig og þá henta göngur þeim mjög vel. Svo að ekki sé talað um félagsskapinn en þarna kynnast félagar og geta borið saman bækur sínar um sameiginlega reynslu sjúkdómsins. 
Jafningjastuðningur í sinni tærustu og heilnæmustu mynd.

Guðrún Barbara Tryggvadóttir
ritstjóri fréttabréfs Nýrnafélagsins

Á döfinni 

19. nóvember kl. 17:30

Slökunarfundurinn sem allir hafa beðið eftr í aðdraganda jóla

„Að virkja heilunarmátt líkamans“
Núna 19. nóvember kl. 17:30, stendur Nýrnafélagið fyrir örnámskeiði sem það nefnir “að virkja heilunarmátt líkamans”
Á þessu örnnámskeiði verður farið í aðferðir sem hver og einn getur tileinkað sér, hvar sem er og hvenær sem er, honum að kostnaðarlausu.
Einu útgjöldin eru að gefa sér smá tíma daglega og tileinka sér aðferðir sem farið er að nota um allan heim af fólki sem annt er um líkamlega-og andlega heilsu. Aðferðir sem sérfræðingar á tauga- og geðheilbrigðissviðinu hvetja til og nýta sér í sínum meðferðarúræðum.Á þessu örnámskeiði verða kynntar og kenndar einfaldar öndunar- og hugleiðsluæfingar. Rétt öndun styrkir ónæmiskerfið, bætir svefn og eykur brennslu líkamans. Hugleiðsla er æfarfornt hugrænt meðferðform og leiðbeint verður um mismunandi aðferðir við að stunda hugleiðslu svo hver og einn á að geta fundið leið sem hentar honum.Námskeiðsstjóri er Gunnhildur Heiða Axelsdóttir fjölskyldufræðingur
 

10. desember, kl. 18:00

Jólafundur Nýrnafélagins

Jólafundur Nýrnafélagsins verður með hefðbundnu sniði, hlauparar  heiðraðir, bingó með frábærum vinningum , jólabókin kynnt, jólatónar, gleði  og gaman. Allir velkomnir og takið með ykkur gesti.

Embætti landlæknis hefur nú birt ný viðmið fyrir orku og næringarefni en slík viðmið voru síðast gefin út fyrir 10 árum síðan. Viðmiðin byggja á mati á neyslu næringarefna hjá heilbrigðu fólki.

Pistill eftir Jóhönnu Eyrúnu Torfadóttur.

Norðurlöndin hafa síðan árið 1980 verið í samstarfi um að vinna ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Hvert land gefur svo út eigin ráðleggingar þar sem tekið er tillit til aðstæðna svo sem mataræðis og fæðuframboðs hverrar þjóðar. Nýju viðmiðin sem komu út í byrjun júlí eru fyrst og fremst hugsuð sem leiðbeiningar fyrir fagfólk sem skipuleggur matseðla fyrir hópa fólks og fyrir kennslu. Uppfærðar ráðleggingar um mataræði fyrir almenning verða birtar síðar eða að loknu samráði við ýmsa hagaðila þar sem tekið er tillit til aðstæðna á Íslandi. Sambærilegt samráðsferli hefur farið fram eða er í gangi á hinum Norðurlöndunum.

Í dag eru ráðleggingar um mataræði settar fram á þann hátt að ráðlagt er hvaða fæðutegundir ætti að borða oft og hvaða fæðutegundir ætti að borða sjaldnar. Á bakvið slíkar ráðleggingar liggja hundruðir rannsókna sem sérfæðingar fara yfir. Þessir sérfræðingar hafa reynslu og þekkingu á því að setja rannsóknir í samhengi við takmarkanir sem fylgja öllum rannsóknum. Það þýðir að aldrei eru gefnar út ráðleggingar frá opinberum stofnunum á borð við embætti landlæknis sem byggja á fáum rannsóknum. Þess í stað hafa Norðurlöndin unnið saman að því að fara kerfisbundið (í stað þess að handvelja rannsóknir eftir geðþótta) í gegnum allar samantektir vísindarannsókna á stórum hópum þátttakenda frá 2010 fyrir hvert viðfangsefni næringar  og heildaráhrifin metin. Þessi vinna tók 5 ár og tóku yfir 400 sérfræðingar þátt í þeirri vinnu og voru nýjar Norrænar næringarráðleggingar gefnar út fyrir ári síðan

Ýmis viðmið um næringarefni hafa breyst við þessa yfirferð – aðallega vegna breyttrar aðferðafræði við útreikninga á ráðlögðum dagskömmtum (RDS) fyrir vítamín og steinefni og vegna nýrra viðmiða um orkuinntöku mismunandi hópa. Þetta hefur leitt til þess að RDS fyrir eftirtalin næringarefni hafa hækkað umtalsvert: E-vítamín, B6-vítamín, fólat, B12-vítamín, C-vítamín, kalk, sínk og selen. Þrátt fyrir að RDS fyrir áðurnefnd næringarefni hafi hækkað er ekki talin þörf á því að taka bætiefni. Öll RDS gildi eru sett hátt til að tryggja að stærstur hluti þjóðarinnar (97,5%) nái að uppfylla þörfinni fyrir hvert vítamín og steinefni. Þá skal tekið fram að hér er átt við meðalneyslu vítamína og steinefna yfir lengri tíma. Í ýmsum tilvikum getur þó verið þörf á sértækari ráðleggingum og þess vegna er mikilvægt að fá aðstoð frá næringarfræðingi eða næringarráðgjafa þegar grunur vaknar um að viðkomandi sé ekki að ná að uppfylla næringarþörf líkamans og/eða ef viðkomandi er með sjúkdóm og þarfnast ráðlegginga um mataræði honum tengt.

Önnur breyting sem gerð hefur verið er tengd sykri en hingað til hefur verið lögð mest áhersla á að takmarka neyslu á viðbættum sykri en núna er líka mælt með því að takmarka neyslu á sykri sem er náttúrulega til staðar í hunangi, sírópi, ávaxtasafa og ávaxtaþykkni.

Fá Íslendingar almennt nóg af vítamínum og steinefnum?

Til að meta hvort þörf fyrir mismunandi næringarefni sé mætt á Íslandi var stuðst við
nýjustu landskönnun á mataræði frá 2019-2021. Niðurstöður könnunarinnar sýna að neysla
þátttakenda á fólati, C-vítamíni, kalíum og joði var undir meðalþörf sem eru lægri gildi en RDS og eru notuð til að meta hvort neysla næringarefna sé almennt nægjanleg í mataræðisrannsóknum. Járnneysla kvenna reyndist einnig undir meðalþörf. Þá náðu þau sem ekki tóku D-vítamín sem bætiefni ekki að mæta meðalþörf fyrir D-vítamín. Hægt er að auka neyslu flestra þessara næringarefna með því að fylgja almennum ráðleggingum um mataræði sem leggja áherslu á fæðutegundir úr jurtaríkinu svo sem grænmeti, ávexti, ber, belgjurtir, heilkornavörur, hnetur og fræ. Einnig er mælt með því að borða nægjanlega af fiski, hóflegri neyslu á fituminni mjólkurvörum og að takmarka rautt kjöt, sérstaklega unnar kjötvörur og matvörur sem innihalda mikið af sykri, salti og mettaðri fitu eins og kökur, kex, sælgæti og snakk. Eina steinefnið sem Íslendingar fá almennt of mikið af er natríum, sem er hluti af salti og getur hækkað blóðþrýsting. Minnka má saltneyslu með því að velja lítið unnin matvæli, nota sem oftast krydd sem innihalda ekki salt og velja vörur sem merktar eru Skráargatinu. Skráargatsmerktar vörur innihalda minna salt miðað við sambærilegar vörur sem eru ekki merktar með Skráargatinu.

Almennt er ekki mælt með notkun bætiefna til að bæta upp fyrir ófullnægjandi mataræði. Þess í stað er mælt með fjölbreyttu og vel samsettu fæði í takt við fæðutengdar ráðleggingar. Þó almennt sé hægt að fullnægja næringarefnaþörfinni með fjölbreyttu og vel samsettu fæði er öllum Íslendingum ráðlagt að taka D-vítamín sérstaklega sem bætiefni, t.d. lýsi, lýsisperlur, D-vítamíntöflur eða úða. Rúm 60% fullorðinna tóku D-vítamín reglulega sem bætiefni árið 2023. Einungis um helmingur grunnskólanema á fyrsta ári tóku D-vítamín sem bætiefni veturinn 2022/23 samkvæmt lýðheilsuvísum embættis landlæknis (gögn úr Ísskrá).

 Ákveðnir hópar fólks geta þó haft þörf fyrir fleiri bætiefna en D-vítamín. Konum sem geta orðið barnshafandi er ráðlagt að taka fólat og halda því áfram fram í viku 12 á meðgöngu. Sömuleiðis geta einstaklingar með mjög litla orkuinntöku (undir 1500 hitaeiningar á dag að meðaltali) verið í þörf fyrir bætiefni. Þá er mælt með því að Grænkerar taki B12-vítamín sem bætiefni.

Ráðleggingar um fitu, kolvetni og prótein

Ráðleggingar um orkugefandi næringarefnin, fitu, kolvetni og prótein, eru gefin upp sem hlutfall af heildarorkuinntöku og liggja á ákveðnu bili í stað þess að vera eitt fast gildi. Ekki er endilega mælt með því að fylgjast þannig með mataræði sínu að þörf sé á að reikna hvert hlutfallið sé milli fitu, mettaðrar fitu, kolvetna, frírra sykra og próteina. Frekar er mælt með því að fylgja ráðleggingum um hversu mikið ætti að borða af mismunandi fæðutegundum og hafa í huga diskamódelið sem sýnir hvernig er best að skipta upp fæðutegundum í máltíðum dagsins. Fyrir þau sem fylgjast með þessum hlutföllum milli orkugefandi næringarefna er ágætt að kynna sér hvað er ráðlagt í þeim efnum (sjá töflu 6 á bls 10. Hér).

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um mettaða fitu og hvort að hún sé skaðvaldur heilsunni eða ekki. Alltaf þegar rætt er um einstök næringarefni eins og mettaða fitu er nauðsynlegt  að taka tillit til heildarmataræðis þ.e. hvað við fáum af öðrum næringarefnum samhliða mettaðri fitu. Mettuð fita er fita sem við fáum m.a. úr rauðu kjöti, smjörlíki, rjóma, smjöri, osti, pálmolíu, kókosfitu, kökum og kexi. Þegar skoðuð eru áhrif þess að borða minna af fæðutegundum sem innihalda mikið af mettaðri fitu á heilsutengda þætti skiptir mestu máli hvað við borðum í staðinn. Ef við borðum í staðinn meira af fæðutegundum sem innihalda ómettaða fitu (mjúka fitu) sem finna má í fæðutegundum eins og feitum fiski (laxi, silungi, síld og lýsi), hnetum, fræjum og fljótandi jurtaolíum eru minni líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum. Þannig að með því að fylgja ráðleggingunum um mataræði er bæði hægt að koma í veg fyrir skort á næringarefnum sem og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum seinna á lífsleiðinni. Það eru sterk vísindi á bakvið þessar almennu ráðleggingar. 
 

Ganga á hverjum fimmtudegi kl. 17:00 í Laugardal. 
Myndin er af Ragnari Kristjánssyni göngustjóra og hirðljósmyndara félagsins.

www.facebook.com/nyrnafelagid/

www.nyra.is

Útgefandi: Nýrnafélagið, Sigtúni 42, 105 Reykjavík.
Ritstjóri: Guðrún Barbara Tryggvadóttir
Ábyrgðarmaður: Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir
Sími: 5619244

nyra@nyra.is

Opnunartími:
Þriðjudagur og fimmtudagur kl.13:00-16:00
Svarað er í síma félagsins alla daga

Allur réttur áskilin © 2024 Nýrnafélagið, 
Þú færð þennan netpóst af því þú ert félagi í Nýrnafélaginu.

Nýrnafélagið

Sigtún 42

Reykjavík 105

Iceland

Add us to your address book

Þú getur skráð þig af póstlistanum hér.

Email Marketing Powered by Mailchimp




okmark” style=”display: inline-block; width: 0px; overflow: hidden; line-height: 0;” class=”mce_SELRES_start”>