Viðar Örn Eðvarðsson, læknir. Sérfræðingur í nýrnalækningum barna og umsjónarmaður líffæraígræðslu barna, 
Barnaspítala Hringsins, Landspítala

Tengsl offitu hjá börnum við nýrna- og hjartasjúkdóma 

Alþjóðleg samtök nýrnalækna og nýrnasjúklinga hafa frá árinu 2006 valið annan fimmtudag í mars (http://www.worldkidneyday.org/) ár hvert til þess að vekja athygli á nýrnasjúkdómum, þjónustu við nýrnasjúklinga og aðgerðum til að fyrirbyggja nýrnabilun. Mikil fjölgun hefur orðið á fjölda þeirra sem þurfa meðferð vegna nýrnabilunar á lokastigi síðustu áratugina sem skýrist meðal annars af hækkandi meðalaldri, auknum lífslíkum sjúklinga og bættu aðgengi að meðferð við lokastigsnýrnabilun, bæði skilun (blóðhreinsun) og ígræðslu nýra. Árlega hefja um 20-25 Íslendingar blóðhreinsunarmeðferð við nýrnabilun á lokastigi og um það bil 10 einstaklingar gangast undir ígræðslu nýra en algengustu orsakir nýrnabilunar hjá fullorðnum eru háþrýstingur og sykursýki.  

Á Íslandi er tíðni lokastigsnýrnabilunar í börnum undir 18 ára svipuð og gerist meðal annarra vestrænna þjóða en á árunum 1997-2006 greindust 6 börn á aldrinum 0-17 ára (óbirtar niðurstöður: H. M. Jónsson). Algengustu orsakir lokastigsnýrnabilunar hjá börnum og unglingum eru meðfæddir sjúkdómar í nýrum og þvagfærum en ólíkt því sem við á um fullorðna þá greinast börn sjaldnast það ung með háþrýsting og sykursýki að þeir sjúkdómar leiði til nýrnabilunar í æsku.  Landspítalinn (Barnaspítali Hringsins) er eina heilbrigðisstofnunin á Íslandi sem býður upp á sérhæfða þjónustu fyrir börn með nýrnasjúkdóma. Þar fer fram greining og meðferð nýrnabilunar og margvíslegra nýrnasjúkdóma, bæði meðfæddra og áunninna, svo sem bólgusjúkdóma í nýrum, meðfæddra galla á þvagfærum, nýrnasteina, þvagfærasýkinga, og háþrýstings. 

Offita og yfirþyngd eru mikilvægir áhættuþættir langvinnara sjúkdóma svo sem háþrýstings, sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma og nýrnasjúkdóma hjá bæði börnum og fullorðnum en áætlað er að 2-6% útgjalda til heilbrigðismála í vestrænum löndum fari til meðferðar á sjúkdómum tengdum offitu (http://www.who.int/hpr/NPH/docs/gs_obesity.pdf).  

Á undanförnum árum og áratugum hefur yfirþyngd og offita barna og unglinga aukist að því marki að talað er um faraldur.  Í Bandaríkjunum hefur algengi offitu 6-11 ára barna rúmlega tvöfaldast frá sjöunda áratugnum og samkvæmt niðurstöðum úr rannsókn Erlings Jóhannssonar og félaga frá árinu 2006 gætir sömu tilhneigingar hérlendis. Athyglisvert er að tíðni háþrýstings í börnum og unglingum hefur farið vaxandi undanfarna tvo áratugi, að því er virðist í beinum tengslum við aukna yfirþyngd og offitu.  Fyrstu niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem nú er í gangi á blóðþrýstingi 1000 níu til tíu ára barna (S. Steinþórsdóttir, S. B. Elíasdóttir) sýna algengi háþrýstings 2,6% og umtalsverð tengsl við yfirþyngd og offitu. Byrjandi skemmdir á hjarta- og æðakerfi og nýrum voru til staðar hjá nokkrum þeirra barna sem voru með staðfestan háþrýsting. 

Líklegt er að vaxandi algengi yfirþyngdar, offitu og háþrýstings hjá börnum og unglingum muni valda alvarlegum æðaskemmdum og fylgikvillum eins og hjarta- og nýrnasjúkdómum hjá yngra fólki en áður hefur þekkst.  Er það umhugsunarefni að lífslíkur ungs fólks í dag gætu í fyrsta skipti í sögunni orðið lakari en næstu kynslóðar á undan.    
Vaxandi algengi offitu og háþrýstings hjá börnum og unglingum er alvarlegur lýðheilsuvandi sem mikilvægt er bregðast við.  Með því að draga úr algengi yfirþyngdar og meðhöndla háþrýsting hjá börnum og unglingum snemma á ævinni má koma í veg fyrir umtalsverða aukningu á algengi alvarlegs æðasjúkdóms í hjarta, nýrum og heila á næstu áratugum. Nauðsynlegt er að yfirvöld heilbrigðis- og menntamála í samvinnu við Landlæknisembættið, Lýðheilsustöð og aðrar stofnanir sem koma að stefnumörkun lýðheilsumála komi sér saman um leiðir þess að sporna við þessum alvarlega lýðheilsuvanda svo fyrirbyggja megi ótímabæran heilsubrest hjá komandi kynslóðum, þar á meðal nýrnabilun.