Afmælishóf 2011
Á 25 ára afmælisdegi félagsis 30. október 2011 var haldin veisla á Grandhóteli. Þangað mættu liðlega 200 manns í hátíðaskapi, áttu góðan dag saman og nutu veitinga af glæsilegu kaffihlaðborði. Veislustjóri var Hrefna Guðmundsdóttir nýrnalæknir. Í upphafi fluttu þau ávörp Dagfríður Halldórsdóttir fyrsti formaður félagsins og Páll Ásmundsson fyrrverandi yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum.
Félagi sem ekki vill láta nafns síns getið færði félaginu 200 þúsund krónur í afmælisgjöf – í þakklætisskyni fyrir nýtt líf með nýju nýra og góð störf félagsins. Honum eru færðar hugheilar þakkir.
Systkinin Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir og Bjarni Páll Linnet Runólfsson spiluðu saman á fiðlu og píanó og einnig spilaði Bjarni Páll á píanó. Felix Bergsson söng nokkur ástarljóð eftir Pál Ólafsson við ný lög.
Hápunktur hátíðarinnar var þegar nýragjöfum var veitt viðurkenning. Það gerðu tveir af læknum ígræðsluteymis Landspítalans, Runólfur Pálsson yfirlæknir og Eiríkur Jónsson þvagfæraskurðlæknir.
Sl. sumar lét Félag nýrnasjúkra hanna kort og barmmerki sem það færði ígræðsluteymi Landspítalans að gjöf. Þegar nýragjafi útskrifast er honum veitt þessi viðurkenning. Fyrstu gjafarnir fengu sína viðurkenningu í september sl. svo þeir sem voru kallaður til á 25 ára afmælishátíð félagsins voru þeir gáfu nýra fyrir þann tíma en sem hafa gefið nýra síðan aðgerðirnar hófust á Landspítalanum.
Hópur íslenskra nýragjafa er hins vegar miklu stærri og stefnt er að því að finna þá alla og veita þeim þessa viðurkenningu fyrir sína stóru og óviðjafnanlegu gjöf.
Íslendingar eru gjafmildastir allra þjóða þegar kemur að því að gefa annarri manneskju nýra sem lifandi gjafi. Þetta eru miklar hetjur og þegar hópurinn var kallaður upp snerti það sannarlega viðkvæman streng í brjóstum þeirra sem hafa þegið nýra og eiga nú nýtt og betra líf.