Heilbrigð nýru

Flest fólk hefur tvö nýru sem liggja djúpt inni í líkamanum sitt hvoru megin við hrygginn á hæð við neðstu rifin. Nýrun eru 12 x 6 x 3 cm og um það bil 150 gr. Einstaka manneskja fæðist með aðeins eitt nýra.
Mikilvægasta verkefni nýrnanna er að hreinsa úrgangsefni úr blóðinu sem síðar skiljast út með þvaginu. Nýrun stjórna einnig vatns- og saltjafnvægi líkamans og framleiða mikilvæg hormón sem stjórna blóðþrýstingi og blóðmagni.
Ef annað nýrað er fjarlægt, t.d. vegna þess að það er gefið öðrum, eykur nýrað sem eftir er virkni sína.
Nýrnasjúkdómar
Sumir sjúkdómar leggjast aðeins á annað nýrað, svo sem krabbamein í nýra sem læknað er með skurðaðgerð og nýrnasteinar sem oft er hægt að fjarlægja með steinbrjóti.
Síðan eru ýmsir langvinnir nýrnasjúkdómar sem leiða til nýrnabilunar. Blóð einstaklinga með lokastigsnýrnabilun er hreinsað með skilunarmeðferð.
Þeim sem er hættast við að fá langvinnan nýrnasjúkdóm eru þeir sem eru sykursjúkir, með háan blóðþrýsting eða eiga nána ættingja með nýrnasjúkdóm.
Einnig geta nýrun bilað snögglega vegna annarra sjúkdóma eða slysa en oft ná þau sér og starfa eðlilega að nýju.
Einkenni nýrnasjúkdóma eru lítil sem engin í upphafi en þegar sjúkdómurinn er kominn á alvarlegra stig finnur fólk fyrir þreytu, almennum slappleika, minni matarlyst, kláða, getur átt erfitt með svefn og jafnvel að hugsa skýrt. Einnig bólgna fætur og öklar. Blóðprufa og þvagprufa skera úr um hvort um skerta starfsemi nýrnanna er að ræða.
Það sem sá sem greinist með alvarlegan nýrnasjúkdóm getur gert til þess að hægja á sjúkdómnum er eftirfarandi:
Ef blóðþrýsingurinn er hár er mikilvægt að hann lækki. Það er gert með aukinni hreyfingu, breyttu mataræði og lyfjum.
Ef um sykursýki er að ræða er mikilvægt að halda blóðsykrinum eðlilegum. Það er gert með breyttu mataræði og lyfjum.
Sá sem reykir verður að hætta því. Reykingar auka mjög hættuna á því að sjúkdómurinn versni og dregur úr áhrifjum lyfja sem tekin eru til þess að lækka blóðþrýsting.
Gæta þarf að mataræði og draga úr neyslu fæðu sem er rík af eggjahvítuefnum.
Meðferð nýrnabilunar
Engin meðferð er til sem læknar skemmd og óstarfhæf nýru. Þegar nýrnabilun er komin á lokastig er markmið meðferðarúrræða að viðhalda lífi og lífsgæðum.
Völ er á tvenns konar meðferð, ígræðslu nýra eða blóðhreinsun, svokallaðri skilun. Til eru tvær tegundir af skilun, blóðskilun og kviðskilun. Blóðskilun fer þannig fram að blóð einstaklings er leitt út fyrir líkamann um slöngu í gegnum skilunarhylki (gervinýra) með aðstoð vélar og er síðan skilað aftur inn í líkamann. Í skilunarhylkinu er himna og um hana eru úrgangsefni, sölt og vökvi fjarlægð úr blóðinu.
Meðferðin er háð blóðflæði um skilunarhylkið og þarf sérstakt aðgengi að æðakerfi einstaklingsins til að það sé fullnægjandi. Slíkt aðgengi nefnist fistill sem er myndaður með því að tengja saman slagæð og bláæð.
Blóðskilun er oftast framkvæmd þrisvar í viku og tekur meðferðin þrjár til fimm klukkustundir. Blóðskilun fer yfirleitt fram á sjúkrahúsi. Kviðskilun felst í því að skilunarvökva er rennt inn í kviðarhol í gegnum sérstakan legg sem hefur verið komið fyrir inni í kviðarholinu. Þegar skilunarvökvinn kemst í snertingu við lífhimnuna færast úrgangsefni og sölt úr háræðunum í lífhimnunni yfir í vökvann.
Skipt er um skilunarvökva með jöfnu millibili yfir daginn eða á nóttunni. Næturkviðskilun er jafnan gerð með aðstoð vélar.
Kviðskilunarmeðferð fer yfirleitt fram í heimahúsi og annast einstaklingurinn sjálfur eða aðstandendur framkvæmd hennar. Ígræðsla nýra er besta meðferðin við lokastigsnýrnabilun. Nýra getur fengist frá lifandi gjafa, t.d. ættingja, maka eða vini. Einnig er mögulegt að fá nýra úr látnum gjafa fyrir milligöngu líffærabanka.
Ævilöng lyfjameðferð sem bælir ónæmiskerfið er nauðsynleg til að koma í veg fyrir að ígræddu nýra sé hafnað af þeganum.
Ekki eiga allir möguleika á að gangast undir ígræðslu nýra af ýmsum læknisfræðilegum ástæðum