Á kynningarfundi Heilsuhópsins 21. maí 2008 kom m.a. fram í máli Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis að rannsóknir benda ótvírætt til þess að hreyfing skipti gífurlega miklu máli í bættri heilsu fyrir langveikt fólk.

Það er látlaust verið að segja okkur hvað hreyfing sé holl og góð og svo fylgja myndir af stálhraustu ungu fólki. Og vissulega er það rétt – hreyfing er nauðsynleg fyrir heilbrigt fólk. Hreyfing stuðlar að áframhaldandi heilbrigði og kemur í veg fyrir marga sjúkdóma. En allt of margir trúa því að þeir verði að hlífa sér og reyna sem minnst á sig vegna þess að þeir eru veikir. Þetta er alrangt.
Þjálfun er afar mikilvæg fyrir alla nýrnasjúka.
Rannsóknir sýna að reglubundin þjálfun á bæði styrk og þreki hægir á nýrnabiluninni.
Fyrir fólk í skilun er þjálfun mjög nauðsynleg, næringarástandið batnar og fólki líður
andlega miklu betur. Lífsgæði verða meiri.
Fyrir þá með ígrætt nýra er þjálfun mjög af hinu góða. Svo dæmi sé tekið er miklu
minni hætta á að fá lyfjasykursýki ef fólk með ígrætt nýra stundar reglubunda
hreyfingu.
Á fundinum sagði Oddgeir Gylfason tannlæknir og nýraþegi sína sögu og hvernig hreyfing sem
byrjaði hægt og jókst síðan upp langhlaup bættu líf hans og heilsu.
Hreyfing er fyrir alla – enginn hámarksaldur.
Fólk verður að sníða sér stakk eftir vexti. Byrja rólega – bara labba af stað.
Setja sér markmið og taka frá tíma í hreyfinguna.
Á fundinum var ákveðið að hittast alla miðvikudaga klukkan 17:30 við bílastæðið hjá KFUM/K húsinu við Holtaveg en þar er gott bílastæði og falleg aðkoma inn í Laugardalinn. Svo göngum við eða skokkum hver eftir sinni getu.
Æfingaáætlun fyrir byrjendur verður dreift.
Markmiðið er:
AÐ BÆTA EIGIN HEILSU
AÐ TAKA ÞÁTT Í GLITNISHLAUPINU 23. ÁGÚST – GANGA, SKOKKA EÐA HLAUPA
ÁKVEÐNA VEGALENGD OG KYNNA ÞANNIG FÉLAG NÝRNASJÚKRA OG AFLA ÞVÍ TEKNA
Taktu þátt þín vegna og félagsins
HEILSUHÓPURINN