Nýrað fréttabréf 1. tbl. 2023

*|MC:SUBJECT|*Nýrað

FRÉTTABRÉF 1. tbl. 36. árg. 2023

Fréttabréf í mars 2023

Kæru félagar

Þann 9. mars er Alþjóðlegi nýrnadagurinn.
Þann dag vekjum við athygli á þessum sjúkdómi sem svo mörg okkar eru að berjast við.
Þess vegna eru forvarnir stjórn Nýrnafélagsins efst í huga á þessum tíma. Sérstaklega þegar tölur berast ár eftir ár þess efnis að ómeðhöndlaður hár blóðþrýstingur sé helsta orsök nýrnabilunar á lokastigi á Íslandi.
Þetta er ekki flóknara en svo að ef að allir létu mæla blóðþrýstinginn reglulega þá væri hægt að koma í veg fyrir svo mörg tilfelli fólks með lokastigs nýrnabilun.
Þessi staðreynd er sorgleg  að svona einföld aðgerð eins og það að mæla blóðþrýstinginn geti komið í veg fyrir alvarleg veikindi eins og nýrnabilun og auðvitað fleiri sjúkdóma. 
Svo er það líka staðreynd sem margir vita ekki að það er engin lækning við lokastigs nýrnabilun. Fólk með lokastigs nýrnabilun fer í blóðskilun eða kviðskilun og er þar, ef að það finnst ekki nýragjafi.
Margir eiga því miður ekki kost á að fá nýtt nýra. Margar ástæður geta legið fyrir því eins og aðrir sjúkdómar eða mótefni í líkamanum sem valda því að illa gengur eða alls ekki að finna nýragjafa sem passar einstaklingnum.
En til allra hamingju þá gengur þetta upp hjá flestum að fá nýra og endurheimta sitt fyrra líf að mestu. En ígrætt nýra dugar nýraþega því miður ekki alla ævi. Margir þurfa að fá annað nýra grætt í sig og það á sérstaklega við um börn sem fá sitt fyrsta nýra ung að árum. 
En horfur hafa breyst til batnaðar eftir að lögum var breytt um ætlað samþykki til líffæragjafar og verður aldrei nægjanlega þakkað þeim sem þar áttu hlut að máli.
Einnig eru sérfræðingar bæði íslenskir og erlengir að róa að því öllum árum að bæta hag nýrnasjúklinga á komandi árum.
Þangað til kæru félagar skulum við taka höndum saman og láta mæla blóðþrýstinginn og hvetja alla í kringum okkur til að gera slíkt hið sama. Bendum á þessar staðreyndir og stuðlum að  lækkun á  blóðþrýstingi.

Með kærri kveðju,

Guðrún Barbara
ritstjóri fréttabréfsins

Nýrnafélaðið hefur ráðið næringarfræðing til starfa  Berthu Maríu Ársælsdóttur. Þjónusta og ráðgjöf hennar stendur öllum félögum til boða gjaldfrjálst. Félagar geta pantað tíma hjá henni á skrifstofu félagsins í síma 561 9244 eða á nyra@nyra.is. Félagar úti á landi geta nýtt sér rafrænan- eða símatíma.

Næringarráðgjöf
Höf.: Bertha María Ársælsdóttir matvæla- og næringarfræðingur M.Sc.
Gott mataræði og lífsstíll er mikilvægur þáttur í því að halda orku og góðri heilsu. Þegar sjúkdómar banka uppá þá eykst mikilvægi þessarra þátta enn meira.
Embætti landlæknis gefur út almennar leiðbeiningar um mataræði sem eru grunnurinn að góðum lífsháttum fyrir þjóðina en einstaklingsbundnar ráðleggingar taka mið af líkamsástandi og matarvenjum. Næringarfræðingar eru sérfræðingar í næringarmeðferð einstaklinga – bæði fyrir heilbrigða og einnig þegar glímt er við sjúkdóma eins og skerta nýrnastarfsemi.
Einstaklingar með skerta nýrnastarfsemi geta fylgt almennum ráðleggingum um mataræði frá Embætti landlæknis því þar er lögð áhersla á fjölbreytt mataræði þar sem ferskar fæðutegundir eru grunnur máltíða. Einnig getur gott fæðuval haft fyrirbyggjandi áhrif á versnun sjúkdómsins.
Mikilvægi einstaklingsbundinna ráðlegginga eykst þegar sjúkdómurinn ágerist og þá er farið eftir niðurstöðum rannsókna. Einungis læknar geta túlkað þessar niðurstöður og gefið leiðbeiningar um hvaða breytingar þurfi að gera í mataræði. Næringarfræðingar aðstoða einstaklinga við að taka mið af þessum leiðbeiningum og gefa ráð um fæðuval.
Til viðbótar við skerta nýrnastarfsemi eru einstaklingar oft að glíma við fleiri heilsubresti svo sem sykursýki og hjartasjúkdóma. Það getur því verið flókið að taka mið af mismunandi ráðleggingum lækna eftir því hvaða sjúkdómur á í hlut.
Meðlimir Nýrnafélagsins geta nú óskað eftir aðstoð næringarfræðings sem sérhæfir sig í næringarmeðferð nýrnasjúkdóma.

www.facebook.com/nyrnafelagid/

www.nyra.is

Útgefandi: Nýrnafélagið, Sigtúni 42, 105 Reykjavík.
Ritstjóri: Guðrún Barbara Tryggvadóttir
Ábyrgðarmaður: Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir
Sími: 5619244

nyra@nyra.is

Opnunartími:
Þriðjudagur og fimmtudagur kl.13:00-16:00
Svarað er í síma félagsins alla daga

Allur réttur áskilin © *|CURRENT_YEAR|* *|LIST:COMPANY|*, 
*|IFNOT:ARCHIVE_PAGE|* *|LIST:DESCRIPTION|*

*|HTML:LIST_ADDRESS_HTML|* *|END:IF|*

Þú getur skráð þig af póstlistanum hér.

*|IF:REWARDS|* *|HTML:REWARDS|* *|END:IF|*