Niðurfellingu bráðmóttöku Landspítala mótmælt
Stjórn Félags nýrnasjúkra mótmælir harðlega ákvörðun framkvæmdastjórnar Landspítalans að leggja niður bráðamóttöku á Hringbraut og beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnarinnar að það verði ekki gert á meðan öll önnur þjónusta við nýrnasjúka er þar til húsa.
Einnig lýsum við yfir furðu okkar á því að ekki hefur verið haft samráð við félagið í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem nýrnasjúkir hafa varðandi þetta mál.
Það liggur ljóst fyrir að einn spítali á að hafa eina bráðamóttöku – að því gefnu að sjúkrahúsið allt sé á einum stað. Svo er ekki háttað um Landspítalann. Byggingum sjúkrahússins er dreift víða um borgina og nágrenni hennar. Stærstu byggingarnar eru annars vegar á Hringbraut og hins vegar í Fossvogi og þar fer sú starfsemi fram sem felur í sér bráðameðferð alvarlegra sjúkdóma og slysa.
Hagsmunir sjúklinga virðast ekki vera hafðir að leiðarljósi hjá þeim sem taka ákvörðun um að slíta sundur bráðamóttöku fyrir nýrnasjúka (og marga með aðra alvarlega sjúkdóma) og þann kjarna læknisþjónustunnar sem þarf að vera að baki móttökunni.
Mikils kvíða gætir nú hjá mörgum þeirra sem eru í blóðskilun vegna fyrirhugaðra breytinga. Blóðskilun er erfið meðferð og eftir fjórar klukkustundir í vélinni getur fólk orðið svo magnvana og lasið að því er ekki treystandi til þess að fara heim til sín. Bráðamóttakan hefur tekið við þessum einstaklingum og þar hafa þeir getað náð sér. Vandséð er að sparnaður sé fólginn í því að flytja þá sjúklinga suður í Fossvog til þess að þeir geti jafnað sig þar.
Einnig er ljóst að greining sjúklinga með alvarlega nýrnabilun mun geta dregist úr hömlu þegar kalla þarf til sérfræðing frá Hringbraut suður í Fossvog. Slíkt getur haft alvarlegar og óbætanlegar afleiðingar.
Stjórn Félags nýrnasjúkra ítrekar tilmæli sín um að bráðaþjónusta við nýrnasjúka verði ekki skilin frá annarri þjónustu við þann sjúklingahóp þ.e. skilunardeild og nýrnadeild.