Runólfur Pálsson forstjóri Landspitala
Runólfur Pálsson læknir skrifar:
Skiljanlega er uggur í fólki varðandi bólusetningu við COVID-19 þar sem þróun og innleiðing bóluefnisins hefur verið mjög hröð og óvissa um hvenær fólk geti átt kost á bólusetningunni. En það er í raun stórkostlegt að það skuli hafa tekist að þróa bóluefni á svo skömmum tíma og er sá árangur afsprengi vísindastarfs undanfarinna áratuga. Fram til þessa hefur ekkert bent til annars en að bóluefnið sé öruggt. Meiri reynsla af notkun bóluefnisins mun fást á næstu vikum og mun væntanlega varpa skýrara ljósi á öryggi þess.
Fólk með ígrætt nýra er aldrei þátttakendur í prófunum á nýju bóluefni. Þegar tekin er ákvörðun um að ráðleggja bólusetningu meðal nýraþega þá byggist hún á því að bóluefnið hafi reynst öruggt við prófanir á stórum hópum fólks auk þess sem horft er til jákvæðrar reynslu af öðrum bóluefnum hjá líffæraþegum. Vonandi verður hægt að veita nánari upplýsingar um bólusetningu einstaklinga með ígrætt nýra innan fárra vikna.
RP