Kæru félagar Nú er dimmasti og bjartasti mánuður ársins runninn upp, sjálfur jólamánuðurinn. Hann felur í sér að hafa svo margt dásamlegt upp á að bjóða en getur líka haft sínar erfiðu hliðar sem erfitt getur verið að vinna úr. Eitt er jólamataræðið en það getur reynst flókið fyrir fólk með langvinna nýrnasjúkdóma. Til að reyna að aðstoða í þessum efnum skrifar Bertha næringarfræðingur Nýrnafélagsins grein um þetta efni til að aðstoða við valið á jólamatnum. En í desember umhverfist allt um gleði, birtu og fjör. Skemmtun með vinum og fjölskyldu og eldmóð. Það eru ótrúlegustu hlutir sem oft eru gerðir í desember og gaman að fylgjast með bjartsýninni sem jólaljósin virðast kveikja hjá fólki. En undirstaðan er sjálf jólahátíðin, þar sem hátíðleikinn umvefur allt á aðfangadagsskvöldi og friður fyllir hjörtun.
Nýtum þennan tíma til að styðja hvort annað því að þá gleymum við oft langvinnum sjúkdómum um stund og ýmsu öðru sem hrjáir okkur og fyllumst af þakklæti. Reynum líka að tendra friðinn innra með okkur og gefa hann áfram til þeirra sem þess þurfa. Styðjum þá sem minna mega sín og biðjum fyrir friði á jörðu á þessum ófriðartímum.
Munum að gæska leiðir af sér gæsku og að gleðja aðra gefur þeim sem það gera bestu gjöfina.. Kæru félagar eigið yndislega aðventu og munið að hægja á ykkur og njóta þessa dásamlega tíma. Gleðileg jól
Guðrún Barbara
ritstjóri fréttabréfsins |