Hresst göngufólk

Fréttabréf í maí 2022

Fréttabréf í maí 2022

Kæru félagar.

Hér birtist fréttabréf Nýrnafélagsins í fyrsta skiptið á rafrænan máta. Ákvörðun var tekin í fyrra af stjórn félagsins að hætta að prenta það og að senda bréfið í pósti nema til þeirra sem sérstaklega  óska eftir því. Við hvetjum fólk til að hafa samband og láta vita ef að fréttabréfið berst ekki til þeirra hvorki rafrænt eða í pósti.

Þessi ákvörðun var tekin vegna náttúruvernda- og fjárhagslegra sjónarmiða þar sem póstburðargjöld hafa hækkað mikið síðastiðin ár.
Það hefur tekið nokkurn tíma að hanna útlit og koma upp aðgengilegu formi til útsendingar og mun fréttabrefið vera fyrst um sinn í stöðugri þróun og hlakkar ritstjóri til að fá ábendingar frá ykkur um tillögur að efni og gaman væri að fá einnig greinar og fréttir frá félögum. Það sem gerir þetta form mjög áhugavert er að það er hægt að koma fyrir meira efni og hægt að senda það út þegar þurfa þykir án mikils tilkostnaðar.eðs umstangs.

Eitt af baráttumálum félagsins eru akstursmál blóðskilunarsjúklinga og sérstaklega þeirra sem þurfa að fara á miilli sveitafélaga í blóðskilun. Þetta baráttumál er í höfn en nánar verður fjallað um það síðar, þegar það verður komið í lagalegan farveg. En endilega hafið samband við félagið ef að einhver vandamál eru núna í sambandi við akstursmál. og við munum kanna það strax meðan að verið er að ganga frá þessu máli hjá Sjúkratryggingum Íslands, en það getur tekið einhvern tíma.

Nýrnafélagið stendur líka á öðrum tímamótum vegna nýrra laga nr. 110/2021.en þar er gert ráð fyrir að öll góðgerðafélög verði almannaheillafélög en til þess að það geti orðið verður að breyta lögum félagsins og liggja þær lagabreytingar fyrir á aðalfundinum á þriðudaginn.

Nýrnafélagið er orðið aðili að almannaheillaskrá sem er ekki það sama og að vera almannaheillafélag. Það eru mun strangari skilyrði sem gilda fyrir almannaheillafélag en að  komast inn á almannaheillasrána. En með veru sinni á skránni fá allir sem styrkja félagið skattaafslátt og félagið er undanþegið mörgum opinberum gjöldum. Þetta er aðallega gert til að fá almenning og atvinnurekendur til að aðstoða við rekstur góðgerðafélaga en róður þeirra hefur þyngst mikið vegna COVID faraldursins.

Með hækkandi sól og blómum í haga fer heilsuhópur Nýrnafélagsins að fara í sínar vikulegu gönguferðir í Laugardal, þar sem er spjallað, skipst á skoðunum og haft gaman. Nánar verður skýrt frá dagsetnu og tíma og öllum félögum sem vilja sent SMS á Reykjavíkursvæðinu þegar þar að kemur. .Einnig vill stjórn félagsins hvetja félaga á öllu landinu að stofna slíka heilsuhópa og hefja gönguferðir eða einhverja aðra hreyfingu saman, því að maður er manns gaman.

Með kærri kveðju og ósk um gleðilegt sumar.

Guðrún Barbara
ritstjóri fréttabréfsins

Hvað er skemmtilegra en aðalfundur þar sem félagar hittast eftir langa fjarveru, spjalla saman og móta framtíð félagsins með góðum kaffibolla.

Lagabreytingar geta verið skemmtilegar og tekið á sig hinar ýmsu myndir eins og þetta með að aðeins skuldlausir félagar hafi seturétt á aðalfundi. Auðvitað er átt við skuldlausir aðilar við Nýrnafélagið. Aðrar skuldir félaga hindra ekki seturétt á aðalfundi og þá vitið þið það, kæru félagar.

Eftirfarandi lagabreytingar verða lagðar fyrir aðalfundinn á þriðjudaginn. Flestar þeirra eru tilkomnar vegna aðildarumsóknar Nýrnafélagsins til að verða almannaheillafélag samkvæmt nýjum lögum nr. 110/2021 þar sem gert er ráð fyrir að öll góðgerðafélög verði almannaheillafélag til að eiga rétt á rikistyrkjum í framtíðinni. En til að geta orðið það þarf að uppfylla ýmis skilyrði, sérstaklega um meðhöndlun fjármuna.

Lesa meira

Nýrnafélagið er komið á almannaheillaskrá, en hvað þýðir það?

Með lögum nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), var heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá sem Skatturinn heldur.

Breyting þessi tók gildi í dag, 1. nóvember 2021.

Meðal þeirra skilyrða sem lögaðilar þurfa að uppfylla til þess að gjafir eða framlög til þeirra skapi frádráttarrétt hjá gefanda er að um sé að ræða eftirfarandi starfsemi móttakanda: Mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindalega rannsóknarstarfsemi, starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða, neytenda- og forvarnastarfsemi, starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Viðkomandi móttakandi gjafar eða framlags þarf að vera skráður í almannaheillaskrá á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag veitt.

Gleymdirðu innkaupapokanum heima?

Þú færð hann hjá Nýrnafélaginu á aðeins kr. 1.200 og styrkir gott málefni í leiðinni.

Hægt er að panta á nyra@nyra.is eða í síma 896 6129. Sendum hvert á land sem er.

Hægt er að leggja inn á reikning félagsins,  bankaupplýsingar eru eftirfarandi: 115-26-018061 og kennitalan er 6703671279.

 

Heillaóskakort

Þegar stórir atburðir eiga ser stað í lifi fólks, þá er tilvalið að gefa því heillaóskakort Nýrnafélagsins. Þá er verið að óska fólki heilla á  táknrænan hátt og styrkja gott málefni um leið.

Panta hér:

Baráttumál félagsins eru eftirfarandi:

  1. Blóðskilunarsjúklingar fái aksturskostnað greiddan
  2. Blóðskilun á fleiri staði út um land.
  3. Heimablóðskilun verði efld.
  4. Íslenskir nýrnasjúklingar fái strax aðgang að nýrakrossagjafakerfinu sem er í Skandinavíu.
  5. Ferðmenn hafi aðgang að blóðskilun á Íslandi eftir COVID, verklagsreglur útbúnar og þær t.d. settar á heimasíðu Nýrnafélagsins ásamt tengiliðum, sem ferðamenn geta haft samband við.
  6. Nýrnalæknar fari á staðina út um land og hitti sjúklinga á staðnum í staðinn fyrir að sjúklingarnir þurfi alltaf að fara til læknanna..
  7. Netið verði meira notað í samskiptum lækna við sjúklinga sérstaklega úti á landi
  8. Vitundarvakning um háan blóðþrýstinga og hættuna á nýrnabilun.
  9. Nýrnasjúklingar hafi aukinn aðgang að næringarfræðingum
  10. Uppfært fræðsluefni um næringu fyrir nýrnasjúklinga verði aðgengilegt, t.d. á heimasíðu Nýrnafélagsins.

 

Ráðgjöf og stuðningur

Af hverju ættir þú að ganga í Nýrnafélagið?

Komið hefur í ljós að allt of fáir vita af tilurð Nýrnafélagasins og hvað það getur gert fyrir þá sem greinast með nýrnasjúkdóm.

Félagið er með á sinum snærum jafningjastuðning og spjallhópa þar sem félagar leita styrks og ráða hjá hverjum öðrum. Félagið býður einnig upp á  fjölskyldufræðing og íþróttafræðing sem stendur félögum til boða á þessum niðurskurðartímum.þar sem ekki er hægt að komast að hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa Landspítala nema að fólk sé inniliggjandi. Næringarfræðingur er líka nauðsynlegur öllum þeim sem greinast með nýrnasjúkdóm og reynir félagið eftir fremsta megni að koma upplýsingum til sinna félaga um næringu og það sem nauðsynlegt er að vita fyrir nýrnasjúklinga.

En kæru félagar án ykkar væri ekkert félag, styðjið okkur enn frekar og látið vita af félaginu og gangið í það ef að þið eruð ekki búin að því. Saman erum við sterkari og getum sigrast á flestum vandamálum.
Gerast félagi hér: