Viðtal við Sunnu Snædal nýrnalækni.
Sunna Snædal er sérfræðingur í nýrnalækningum og almennum lyflækningum og starfar sem nýrnalæknir á Landspítalanum. Hún var tilbúin að koma í stutt viðtal við okkur hjá Nýrnafélaginu í tilefni af alþjóðlega Nýrnadeginum til að fræða okkur um háþrýsting og áhrif hans á nýrun.

Nú er of hár blóðþrýstingur helsta orsök nýrnabilunar á lokastigi á Íslandi. Hverjar eru helstu ástæður þess að háþrýstingur leiðir svo oft til nýrnabilunar?

Ef við byrjum á byrjuninni þá er hár blóðþrýstingur oftast einkennalaus lengi fram eftir sem gerir það að verkum að hann er vangreindur. Með tímanum getur fólk farið að finna fyrir almennum einkennum eins og þyngslum yfir höfði, tvísýni eða ógleði en þar geta legið svo margar orsakir að baki eins og álag, vöðvabólga, lítill svefn og fleira. Ef þrýstingurinn er ekki kannaður reglulega getur viðkomandi verið komin upp í allt að 200 yfir 110, sem er mjög alvarlega staða, án afgerandi einkenna.

Við sjáum einnig að oft tekur fólk greiningu um of háan blóðþrýsting ekki alvarlega, ekki síst þegar hann kemur oft í ljós í læknisheimsókn sem hefur eitthvað annað markmið. Almenn ábending um að þrýstingurinn sé of hár fellur þá á milli þegar athyglin er á öðru og viðkomandi gerir sér ekki grein fyrir því að smá hækkun á þrýstingi um fertugt getur þýtt mjög alvarlega stöðu 10 árum síðar.

Íslenskar rannsóknir hafa einnig sýnt að aðeins um 45% sjúklinga sem er á lyfjum við of háum blóðþrýstingi ná meðferðarmarkmiðum. Margt spilar þar inn í en hluti af því er að fólk hættir að mæta í eftirlit ásamt því að fólk er jafnvel á sömu lyfjum á sama styrk árum saman. Það er mjög mikilvægt að stilla lyfjanotkunina eftir aldri, þyngd og almennu heilsufari og skammturinn sem þú ert á í dag er alls ekki endilega réttur 5 árum síðar.

Hver eru helstu afleiðingar af of háum blóðþrýstingi til lengri tíma?

Það er mikilvægt að taka greiningu á of háum blóðþrýstingi alvarlega því áhrifin af honum til lengri tíma auk nýrnabilunar geta verið t.d. kransæðasjúkdómar, heilablóðfall eða hjartabilun svo eitthvað sé nefnt. Það skiptir því miklu máli að fara reglulega í mælingu, taka því alvarlega ef þrýstingur er of hár og fylgja svo meðferðarúrræðum eftir með reglubundnum heimsóknum til læknis til að kanna hvort það þurfi að breyta meðferð eftir því sem árin líða.

Hvað getur fólk gert til að fylgjast með blóðþrýstingi á auðveldan hátt?

Best er að hafa þetta á bak við eyrað þannig að þetta sé ofarlega í huga þegar þú þarft að fara í apótek, á heilsugæsluna eða til læknis. Mörg apótek bjóða upp á blóðþrýstingsmælingu og í sumum heilsugæslum þarf ekki að bóka tíma hjá lækni heldur eru hægt að fá mælingu hjá hjúkrunarfræðingi. Það er um að gera að nota tækifærið í þeim læknatímum sem þú þarft að fara í og láta mæla þrýstinginn og með þessu móti getur þú fylgst með honum á mjög reglubundinn hátt. Mælarnir eru líka seldir í apótekum og tilvalið að einhver í ættinni eigi mæli og hægt sé að kíkja í heimsókn og taka mælingu.

Hverjir eru helstu áhættuþættir fyrir háþrýsting?

Það er aðallega tvíþætt, annarsvegar getur háþrýstingur verið ættgengur og hins vegar tengist hann lífstíl og matarræði.  Ef vitað er um háþrýsting hjá nánustu ættingjum er um að gera að mæla þrýstinginn reglulega. Það eru líka til sjúkdómar sem ýta undir háþrýsting eins og hormónaraskanir en það er mun sjaldgæfara.

 

Hvað varðar lífsstílinn þá er það hreyfingarleysi ásamt matarræði svo sem neysla á unninni matvöru og saltríku fæði. Líkt og með sykursýki er talað um faraldur í háþrýstingi í vestrænum heimi sem er talinn stafa aðallega af lífsstílsþáttum. Fjórði þátturinn er svo kæfisvefn en margir átta sig ekki á því að hann ýtir undir háan þrýsting. Margir telja sig ekki þjást af kæfisvefni vegna þess að þeir eru ekki í yfirþyngd en það er alls ekki eini áhættuþáttur kæfisvefns. Stundum áttar maður sig ekki á því hvers vegna meðferð við of háum blóðþrýstingi skilar ekki árangri og spyr þá út í hrotur og kæfisvefn og getur það þá verið orsökin.

Hvernig skemmir háþrýstingur nýrun? 

Nýrun eru mjög æðarík líffæri og hvort nýra inniheldur milljónir starfseininga með fíngerðu háræðaneti. Þegar blóðþrýstingurinn er hár til lengri tíma þá myndast svo mikill þrýstingur inni í nýrunum að það myndast hálfgerðu örvefur eða hersli þannig að æðarnar í nýrunum þrengjast. Að auki eru nýrun einnig stjórnkerfi fyrir blóðþrýsting og ef þrýstingurinn er of hár í langan tíma þá fara þau með tímanum að gefa út boð um að hækka þrýstinginn. Ómeðhöndlaður hár blóðþrýstingur getur því skemmt starfsemi nýrnanna töluvert og hefur verið ein helsta ástæða fyrir nýrnabilun á lokastigi á Íslandi til margra ára þó að aðrar ástæður séu vissulega líka algengar.

Flestir vita að nýrun hreinsa blóðið og mynda þvag en þau gegna ýmsu öðru hlutverki, hvert er annað hlutverk nýrnanna sem færri þekkja

Hlutverk nýrnanna er víðtækt. Þau hreinsa blóð og viðhalda vökvajafnvægi í líkamanum en sjá einnig um að stjórnun sýrustigs í blóðinu og að viðhalda eðlilegu jafnvægi vatns, salts og steinefna í líkamanum. Þau taka einnig þátt í að jafna blóðþrýsting og framleiða rauð blóðkorn svo eitthvað sé nefnt.

Um leið og starfsemi nýrnanna er komin undir um það bil 30% þá fer að bera á blóðleysi og röskunum í kalkbúskap sem ýtir undir beinþynningu og jafnvel að kalk fari inn í æðakerfið. Einnig sjáum við æðasjúkdóma eins og þrengingar í æðum í höfði, fótleggjum eða kransæðum. Nýrnaskaði gerir það einnig að verkum blóðið verður of súrt sem hefur óæskileg áhrif á vöðvakerfi, taugar og í raun öll líffærakerfi.

Fáir vita hvað nýrnabilun felur í sér, geturðu lýst í stuttu máli þeim raunveruleika sem þínir sjúklingar búa við?

Þegar um er að ræða nýrnabilun á lokastigi þá ber fyrst að nefna skerta orku. Skerðing á nýrnastarfsemi hefur mjög víðtæk áhrif og önnur einkenni eru t.d. lystarleysi og þyngdartap, sinadráttur, húðkláði og einbeitningaskortur, ógleði, bjúgur og erfiðleikar með svefn svo eitthvað sé nefnt. Við þetta bætast svo áhyggjur af framtíðinni, starfsorku og fjárhag ásamt hömlum í matarræði eftir því sem sjúkdómurinn þróast. Við vitum líka að nýrnaskaði er mjög óhagstæður fyrir vöðvana sem brotna niður eins og gerist þegar við eldumst. Það er því gríðarlega mikilvægt að byggja upp vöðvana, sem aftur getur verið mjög erfitt þegar orkan er orðin svona lítil. Meðal annars er þess vegna svo mikilvægt að fá greiningu snemma til að hægt sé að breyta um lífsstíl til að hægja á hrörnuninni ásamt því að byggja líkamann upp og undirbúa hann fyrir það sem framundan er.

 

Nýrnafélagið þakkar Sunnu kærlega fyrir að taka svona vel í að spjalla við okkur, gefa okkur góð og skýr svör og taka þannig þátt í því að fræða almenning um áhættuþætti of hás blóðþrýstings.

 

Að lokum bendir félagið á samstarf okkar við Lyfju sem býður ókeypis blóðþrýstingsmælingu í lyfjaverslunum sínum í Smáralind og Lágmúla þann 10. mars 2022 ásamt því að bjóða 15% afslátt af blóðþrýstingsmælum.