FRÉTTIR FRÁ BASARNUM
Basarinn sem félagið hélt í Kringlunni, laugardaginn 14. nóvember 2009, heppnaðist einstaklega vel. Hinar vönduðu og góðu vörur sem basarhópurinn og fleiri félagsmenn höfðu búið til, hvort sem var heimasaumað, prjónað eða heklað ásamt öllu gómsæta bakkelsinu seldist nánast alveg upp. Í kassann kom dágóð summa sem rennur óskipt upp í gerð fræðslumyndar um meðferð nýrnabilunar sem félagið er að láta gera. Einnig var mikilvæg sú kynning á félaginu sem þarna fór fram.
Enn er umræðan um líffæragjafir lítil hér á landi. Félagar dreifðu mörg hundruð líffæragjafabæklingum þennan dag og útskýrðu og fræddu fólk um hvað í því felst að skrá sig sem líffæragjafa.