Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2019 til 2020, flutt á aðalfundi þann 12. maí 2020.
Skýrsla stjórnar fjallar um starfsemi félagsins frá aðalfundi til aðalfundar. Að þessu sinni frá 14. maí 2019 til dagsins í dag.

Stjórn kosin á aðalfundi 14. maí 2019: Formaður Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir, Signý Sæmundsdóttir, María Dungal, Nanna Baldursdóttir, Þuríður Þorbjarnardóttir og varamenn þau Magnús Sigurðsson og Margrét Haraldsdóttir.
Skrifstofan hefur verið opin á þriðjudögum og föstudögum frá klukkan 10.00 til 16.00 og eftir samkomulagi. Stjórnarfundir hafa verið haldnir sjö sinnum á starfsárinu.
Markmið stjórnar fyrir þetta starfsár var þríþætt:
1. Fá fleiri félaga í Nýrnafélagið, einhver aukning hefur orðið því að félagar teljast í dag 350.
2. Gera félagið sýnilegra með meiri umfjöllun á netmiðlum og í fjölmiðlum almennt. Facebook auglýsingar hafa verið notaðar til að auglýsa viðburði félagsins og sérstaklega í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins. Einnig er öll umfjöllun sem birtist í fjölmiðlum tengt nýrnasjúkum sett inn á Facebook síðu félagsins eftir bestu getu. Fylgjendur síðunnar eru orðnir 992. Þeim hefur fjölgað um fjögur hundruð á þessu ári sem er nokkuð gott. Grein birtirst í Fréttablaðinu um hreyfingu nýrnasjúkra að tilstuðlan félagsins í formi viðtals við Björn Þór Sigurbjörnsson þjálfara sem hélt síðan fyrirlestur um sama efni á fræðslufundi félagsins þann 5. nóvember síðastliðinn.
3. Auka styrki úr Reykjavíkurmaraþoninu um helming frá því í fyrra.
Þetta markmið náðist og vel það og vill félagið þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn til að þetta mætti takast.
Sími skrifstofunnar hefur verið framsendur í síma framkvæmdarstjóra utan skrifstofutíma þannig að alltaf er svarað í síma félagsins.
Opið hús var fyrsta hvern þriðjudag í mánuði fyrir áramót en eftir áramót var hugmyndin að halda fræðslufundi í stað opna hússins ásamt skemmtifundi sem átti að koma í stað jólafundar sem þurfti að aflýsa vegna veðurs. En hvorugt hefur gengið eftir vegna COVID-19.
Ný heimasíða er í vinnslu þar sem sú gamla var orðin óstarfhæf og einnig hefur tölvukerfi félagsins verið uppfært.
Stjórnin tók upp þá nýbreytni að streyma frá fræðslufundum á þessu starfsári. Þetta er gert til að þeir sem komast ekki á fundina geti fylgst með og þá sérstaklega fólk úti á landi. Síðan er streymið vistað inni á Facebook síðu félagsins og á heimasíðunni þegar hún kemst í gagnið.
Nýtt nafn félagsins var samþykkt á síðasta aðalfundi og í kjölfar þess var nýtt merki hannað og það uppfært á skjöl og ný skilti voru gerð og notuð í fyrsta sinn í Reykjavíkur maraþoninu í ágúst.
Heimsóknir á skilunardeildir á Akureyri, Selfoss, Neskaupsstað og Reykjavík eru fastir liðir í starfsemi félagsins. Farið er fyrir jól og páska og sjúklingum og starfsfólki afhentur glaðningur. Þessar heimsóknir eru félaginu mjög mikilvægar því að þarna skapast umræður um starfsemi félagins, hvað megi betur fara og hvaða óskir félagar hafa til starfseminnar.
Einnig fór formaður félagsins til Akureyrar til að vígja klakavél sem félagið gaf deildinni og hitti þá nokkra félaga og skoðaði starfsemina á skilunardeildinni fyrir norðan.
Fréttabréfið hefur verið með nýju sniði þetta starfsárið þar sem fastur liður hefur verið pistill sem kallast molar um næringu þar sem tekið er fyrir ýmislegt tengt næringu og mataræði nýrnasjúkra. Einnig var sérstakt blað um COVID-19 gefið út núna í miðjum faraldrinum. Jafnframt er í bígerð að gefa út rit um næringu fyrir nýrnasjúka í samvinnu við sérhæfða aðila.
Nýrnafélagið gaf út kynningarspjöld á starfsárinu til dreifingar og kynningar á félaginu.
Gunnhildur Axelsdóttir fjölskyldufræðingur vinnur fyrir félagið og geta félagsmenn leitað til hennar til að fá ráðgjöf og stuðning eða ef að þá vantar aðstoð í réttindamálum.
Stjórnin hefur ákveðið að ráða Björn Þór Sigurbjörnsson þjálfara til að aðstoða félaga í sambandi við hreyfingu sem hæfir hverjum og einum. Björn Þór hefur sérhæft sig í hreyfingu fyrir nýrnasjúka.
Nýrnafélagið er aðili að norrænum samtökum félaga nýrnasjúkra á Norðurlöndunum. Árlegur fundur samtakanna var haldinn í Danmörku og átti félagið tvo fulltrúa þar, Helgu Hallgrímsdóttur formann félagsins og Magnús Sigurðsson varamann í stjórn. Þar kom fram að halda á ungmennafund í Danmörku og hefur stjórnin tilnefnt fulltrúa Gísla Stein Pétursson til að taka þátt í skipulagningu þessa fundar unga fólksins.
Hefðbundin starfsemi félagsins hefur mikið til legið niðri síðan í mars vegna COVID-19 en með hækkandi sól og minnkandi smithættu er von til að hún fari að færast í eðlilegt horf aftur.
Stjórn Nýrnafélagsins þakkar að lokum öllum félögum gott samstarf og einnig öllum sem hafa liðsinnt félaginu á liðnu starfsári.

Helga Hallgrímsdóttir
formaður Nýrnafélagsins starfsárið 2019-2020