Reykjavíkurflugvöllur –  líflína nýrnasjúkra

“Ertu vitlaus maður, þetta er mín lífæð” varð manni nokkrum að orði þegar hann var spurður að því hvernig honum litist á hugsanlegan brottflutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Þessi maður býr á Norðurlandi og er með nýrnarbilun á lokastigi. Engin meðferð er til sem læknar skemmd og óstarfhæf nýru. Þegar nýrnabilun er komin á lokastig er markmið meðferðar að viðhalda lífi og lífsgæðum. Völ er á tvenns konar meðferð, ígræðslu nýra eða blóðhreinsun, svokallaðri skilun. Til eru tvær tegundir af skilun, blóðskilun sem fer aðeins fram á Landspítalanum við Hringbraut og kviðskilun sem fólk framkvæmir sjálft heima hjá sér. Hins vegar geta ekki allir notað kviðskilun og eru því tilneyddir að fara reglulega, oftast þrisvar í viku, á Landspítalann í blóðskilun til þess að halda lífi. Þessari meðferð nær umræddur Norðlendingur með tveimur flugferðum. Önnur ferðin er dagsferð, hann flýgur suður að morgni og heim um eftirmiðdaginn. Í hinni ferðinni fer hann í blóðskilun tvo daga í röð og gistir þá eina nótt í höfuðborginni. Þetta er mikið og oft erfitt ferðalag ár út og ár inn en undan því verður ekki vikist ef maðurinn vill halda áfram að lifa.
Núverandi borgarstjórn hefur lýst því yfir að stefnt skuli að því að færa miðstöð innanlandsflugsins úr Vatnsmýrinni upp á Keflavíkurflugvöll þvert á vilja meirihluta landsmanna sem vilja að flugvöllurinn sé áfram við bæjardyr Landsspítalans. Ef flugvöllurinn verður fluttur er manninum gert ókleift að búa áfram á sínu heimili fyrir norðan vegna þess að þá kemst hann aldrei fram og til baka á einum degi.
Þetta er ekki saga af einum ákveðnum manni. Þessi saga gildir fyrir alla þá sem búa fyrir vestan, norðan eða austan og þurfa að sækja meðferð við lokastigsnýrnabilun til Reykjavíkur. Og einnig alla þá sem þurfa að fara reglulega til Reykjavíkur til eftirlits vegna þess að þeir eru að veikjast af alvarlegum, langvinnum nýrnasjúkdómi eða hafa ígrætt nýra.
Á meðan Landspítalinn er eini staðurinn á landinu sem veitir nýrnasjúkum þjónustu verður Reykjavíkurflugvöllur að vera áfram í Vatnsmýrinni. Hann er líflína nýrnasjúkra sem búa fyrir vestan, norðan eða austan.
Jórunn Sörensen
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2008