Lög félagsins

Lög Félags nýrnasjúkra

1. gr.
Nafn félagsins
Nafn félagsins er Félag nýrnasjúkra. Félagið er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna þeirra sem veikjast af alvarlegum nýrnasjúkdómum og aðstandenda þeirra.

Félagið nær tilgangi sínum með því:
Að veita þeim aðstoð sem veikjast af alvarlegri nýrnabilun þannig að þeir geti unnið úr því áfalli sem það er að missa heilsuna.
Að halda uppi fræðslu um nýrnasjúkdóma og kjör þeirra sem þjást af alvarlegri nýrnabilun.
Að fylgjast með og kynna nýjungar á sviði meðferðar sjúkdóma í nýrum.
Að efla samstarf við lækna og hjúkrunarfræðinga og aðra þá sem láta sig varða heilbrigði og velferð nýrnasjúkra.
Að bæta aðstöðu við skilun innan lands.
Að starfa í samvinnu við erlend félög nýrnasjúkra.

3. gr.
Félagar
Félagar geta allir orðið sem þess óska og hafa áhuga á að styrkja málstað nýrnasjúkra. 

4. gr.
Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. maí ár hvert og til hans skal boða skriflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Dagskrá skal fylgja fundarboði. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Rétt til fundarsetu og kosninga hafa skuldlausir félagsmenn.

Fastir liðir á aðalfundi skulu vera:
Setning fundarins.
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Lestur fundargerðar síðasta aðalfundar.
Skýrsla stjórnar.
Endurskoðaðir ársreikningar félagsins lagðir fram, skýrðir og afgreiddir.
Endurskoðaðir ársreikningar styrktarsjóðsins lagðir fram, skýrðir og afgreiddir.
Skýrslur starfshópa.
Lagabreytingar.
Kosning stjórnar.
Kosning skoðunarmanna reikninga, einn aðalmann og einn varamann.
Ákvörðun um árgjald.
Önnur mál.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi. Til þess þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins fyrir lok janúarmánaðar og skulu þær fylgja aðalfundarboði. Aldrei má breyta lögum þessum þannig að raskað sé megintilgangi félagsins.

5. gr.
Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skipa fimm menn og tveir til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir 2 í einu til tveggja ára í senn og ganga árlega úr stjórninni á víxl. Varamenn skuli kosnir 1 í einu til tveggja ára í senn og ganga árlega úr varastjórn á víxl. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund kýs stjórnin varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda úr sínum hópi. Boða skal varamenn á stjórnarfundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt.

Stjórnin er ályktunarhæf þegar minnst þrír eru mættir. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns. 

Formaður getur boðað stjórnarfund hvenær sem hann telur henta. Halda skal minnst fjóra stjórnarfundi á ári. Ritari færir fundargerð.

Prókúruhafi er stjórn félagsins eða sá stjórnarmaður sem hún veitir slíkt umboð.

Almennir félagsmenn geta farið fram á að haldinn verði félagsfundur telji þeir ástæðu til. Til þess þarf a.m.k. 25 skuldlausa félagsmenn. 

6. gr.
Starfshópar
Stjórn félagsins getur myndað starfshópa til þess að sinna ákveðnum verkefnum félagsins. Einnig geta félagar sem hafa áhuga á sérstöku málefni félagsins myndað hóp til þess að vinna að því. Hver hópur skal vinna náið með stjórn félagsins. 

7. gr.
Fulltrúar tilnefndir í stjórnir annarra félaga
Stjórn félagsins tilnefnir einn mann í stjórn Þjónustuseturs líknarfélaga til tveggja ára í senn.

Stjórn félagsins tilnefnir einn aðalmann til setu í aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands til tveggja ára í senn og einn til vara. Stjórn félagsins tilnefnir fulltrúa á aðalfund Öryrkjabandalags Íslands til tveggja ára í senn í samræmi við gildandi reglur bandalagsins.

8. gr.
Slit félagsins
Til þess að leggja niður félagið þarf samþykki tveggja aðalfunda og skulu félagsslitin samþykkt með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða á hvorum fundi. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði. Verði félaginu slitið skulu eignir þess ganga til skilunardeildar Landspítalans. 

Samþykkt á aðalfundi 31.mars 2011
Breyting samþykkt á aðalfundi 26. mars 2015.